UEFA Meistaradeild kvenna | Stjarnan tapaði fyrir Slavia Prag í Garðabænum

Stjarnan tapaði fyrir Slavia Prag, 1-2, í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu kvenna á Samsung-vellinum í Garðabæ í kvöld. Stjarnan átti í raun ekki skilið að tapa þessum leik, stóð tékkneska liðinu fyllilega á sporði og átti t.a.m. þrjú af betri færum leiksins og kom sér að auki nokkrum sinnum í lofandi vallarstöðu þar sem síðasta sending geigaði. Slavia Prag skoraði seint í fyrri hálfleik og komst aftur yfir aðeins tveimur mínútum eftir að Lára Kristín Pedersen hafði jafnað metin í síðari hálfleik; sigurmarkið skoruðu þær tékknesku úr vítaspyrnu en áhugavert hefði verið að sjá hvernig leikurinn hefði þróast hefði jöfn staða enst lengur en í tvær mínútur.
Stjarnan og Slavia Prag stóðu býsna jöfn að flestu leyti í þessum leik, á Prag-liðinu sem að stærstum hluta er skipað tékkneskum landsliðskonum, eru veikleikar sem Garðabæjarstúlkur ættu að geta nýtt betur en þær gerðu í kvöld. Síðari leikur liðanna fer fram í Prag eftir rétta viku og þar eru vissulega möguleikar í stöðunni fyrir Stjörnuna.

Meistaradeild Evrópu | 16-liða úrslit
Stjarnan 1-2 Slavia Prag
0-1 Petra Divisova 36.mín.
1-1 Lára Kristín Pedersen 69.mín.
1-2 Katerina Svitkova (vsp) 71.mín.
Lilleström 0-5 Man.City
0-1 Demi Stokes 26.mín.
0-2 Isobel Christiansen (vsp) 40.mín.
0-3 Claire Emslie 69.mín.
0-4 Jane Ross 74.mín.
0-5 Jane Ross 78.mín.

Deila