Þjóðardeildin | Ísland leikur á A-deild

Mynd: Sport.is

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu leikur í A-deild hinnar nýju Þjóðardeildar UEFA, sem hefst í september á næsta ári. Tólf efstu liðin á nýjum styrkleikalista UEFA leika í A-deildinni, efstu deild, tólf þau næstu í B-deild, fimmtán lið í C-deild og sextán neðstu liðin á listanum leika í D-deild.

Deildunum verður skipt niður í riðla, A- og B-deildum í fjóra þriggja liða riðla, C-deild í einn þriggja liða og þrjá fjögurra liða riðla og D-deildinni verður skipt niður í fjóra fjögurra liða riðla. Dregið verður í riðla 24.janúar og leikið í október, nóvember og desember á næsta ári.
Sigurvegarar riðlanna fjögurra í A-deildinni tryggja sér sæti úrslitakeppni, sem leikin verður í júní 2019, og henni lýkur, eðli málsins samkvæmt, með krýningu fyrstu Þjóðardeildarmeistaranna. Fjögur neðstu liðin í A-deildinni falla niður í B-deildina og sæti þeirra taka sigurvegarar riðlanna fjögurra í B-deildinni, og koll af kolli.

Hinn nýi styrkleikalisti UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu, var opinberaður í dag og er um margt ólíkur sambærilegum lista Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA. Liðunum er raðað á lista UEFA eftir árangri í þremur undangengnum eða yfirstandandi undankeppnum og stórmótum og byggir því 20% á undan- og lokakeppni HM 2014, 40% á undan- og lokakeppni EM 2016 og 40% á undankeppni HM 2018.
Deildarskipting er þessi, byggð á styrkleikalista UEFA (liðin í réttri röð):
A-deild:
Þýskaland, Portúgal, Belgía, Spánn, Frakkland, England, Sviss, Ítalía, Pólland, Ísland, Króatía, Holland.
B-deild:
Austurríki, Wales, Rússland, Slóvakía, Svíþjóð, Úkraína, Írland, Bosnía og Herzegóvína, N-Írland, Danmörk, Tékkland, Tyrkland.
C-deild:
Ungverjaland, Rúmenía, Skotland, Slóvenía, Grikkland, Serbía, Albanía, Noregur, Svartfjallaland, Ísrael, Búlgaría, Finnland, Kýpur, Eistland, Litháen.
D-deild:
Azerbadjan, Makedónía, Hvíta-Rússland, Georgía, Armenía, Lettland, Færeyjar, Lúxemburg, Kazakstan, Moldavía, Lichtenstein, Malta, Andorra, Kósóvó, San Marínó, Gíbraltar.

Deila