Spænski boltinn | Er Barca búið að finna arftaka Dani Alves?

Mynd: NordicPhotos/Getty

Fyrir leiktíðina 2016-2017 ákvað brasilíski leikmaðurinn Dani Alves að fara frá Barcelona. Á þeim tíma var Alves talinn einn albesti hægri bakvörður heims og því kom á óvart þegar hann ákvað að fara til Juventus á Ítalíu.
Barcelona gekk illa að finna arftaka hans og þeir gripu meðal annars til þess örþrifaráðs að setja miðjumanninn Sergi Roberto í hægri bakvörðinn með miður góðum árangri.
Í sumar reyndu forráðamenn Barca að fá Hector Bellerin frá Arsenal en verðlagning Arsenal var eitthvað sem spánverjunum þóknaðist ekki.
Í staðinn fóru þeir á stúfana í Portúgal og fundu þar 23ja ára gamlan leikmann sem heitir Nelson Semedo og kaupverðið 30 milljónir evra, jafnvirði um 3.9 milljarða íslenskra króna, var eitthvað sem gekk upp. Þessi upphæð gæti náð 35 milljónum evra samkvæmt ákvæði um ef ákveðnum leikjafjölda er náð.
Semedo er fæddur í Lissabon og hóf sinn atvinnumannaferil hjá neðri deildarliði Sintrense en gekk til Benfica 2012. Árið 2015 héldu sumir að ferill hans yrði ekki blómum skreyttur þegar hann meiddist á hné og varð að fara í aðgerð. Leikur hans dalaði og menn sáu fyrir sér framtíð í neðri deildum en strákurinn var á annarri skoðun og kom sterkari til baka.
Hann á nú 6 A-landsleiki fyrir Portúgal og 43 leiki fyrir A-lið Benfica þar sem hann skoraði 2 mörk.
Leikur hans með Barcelona það sem af er leiktíð hefur glatt margan stuðningsmann Barca og hann lék sinn fyrsta leik gegn Real Betis þar sem Barcleona vann 2-0. Í þeim leik átti Semedo tilþrif sem fjölmiðlar á Spáni líktu við Ronaldinho. Ekki ónýtt það.
Það verður gaman að fylgast með þessum unga Portúgala á næstu árum en Nelson Semedo gerði 5 ára samning við Barcelona.

Deila