Pepsideild kvenna | Þór/KA er Íslandsmeistari!

Þór/KA er Íslandsmeistari kvenna í knattspyrnu 2017. Norðanstúlkur unnu FH í lokaumferð Pepsideildar kvenna 2-0 á sama tíma og helstu keppinautar þeirra, Breiðablik, unnu Grindavík með fjórum mörkum gegn engu. Þór/KA hlaut 44 stig og varð meistari, en Breiðablik er í öðru sæti með 42 stig.

Þór/KA hefur haft forystu í Pepsideild kvenna meira og minna í allt sumar og náði slíkri forystu þegar fjórum umferðum var ólokið að spekingar töldu formsatriði fyrir norðanliðið að læsa klónum um Íslandsmeistarabikarinn. Tapleikir gegn ÍBV og Grindavík hleyptu hins vegar óvæntri spennu í lokaumferðina; Breiðablik rakaði á sama tíma inn stigum og átti fyrir lokaumferðina möguleika á að vinna titilinn.
Breiðablik, sem hefur ekki fengið á sig mark síðan seint í ágúst, vann í dag öruggan sigur á Grindavík á heimavelli 4-0, þar sem Ingibjörg Sigurðardóttir, Kristín Dís Árnadóttir, Rakel Hönnudóttir og Selma Sól Magnúsdóttir skoruðu mörkin. Það dugði þó skammt þar sem Þór/KA vann FH 2-0 og tryggði sér titilinn. Sandra María Jessen og Stephany Mayor skoruðu mörk Þórs/KA.

Deila