Pepsideild kvenna | Pétur Pétursson tekur við Val

Mynd: KSÍ

Pétur Pétursson, fyrrverandi landsliðsmaður, hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs Vals í fótbolta. Pétur er margreyndur, bæði sem leikmaður og þjálfari, og skrifaði undir þriggja ára samning við Val. Hann tekur við þjálfarastarfinu af Úlfi Blandon, sem skilaði Valsliðinu í þriðja sæti Pepsideildar kvenna á síðustu leiktíð.

Pétur var um árabil einn öflugasti leikmaður þjóðarinnar, markaskorari af guðs náð sem m.a. lék með ÍA og KR hér heima, Feyenoord í Hollandi og Antwerpen í Belgíu. Þá lék hann 41 landsleik.
Pétur hefur þjálfað karlalið KR og Fram og var aðstoðarþjálfari hjá HK í Inkassodeildinni á nýafstaðinni leiktíð. Þá var hann aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins þegar Ólafur Jóhannesson, núverandi þjálfari karlaliðs Vals, stýrði þeirri ágætu skútu.

Deila