Pepsídeild kvenna | Hvort verður Þór/KA eða Breiðablik meistari?

Mynd: NordicPhotos/Getty

Í dag ræðst hvort það verður Þór/KA eða Breiðalblik sem lyftir Íslandsmeistarabikarnum í Pepsídeild kvenna. Þór/KA, sem var í afskaplega vænlegri stöðu 17.ágúst þegar liðið vann KR 3-0 á Akureyri, hefur ekki gengið vel. Síðan þá hefur Þór/KA tapað tveimur leikjum, fyrir ÍBV og Grindavík, og unnið Stjörnuna.
Á meðan á þessu gekk hjá norðanstúlkum gekk allt í haginn hjá Breiðabliki og liðið farið á kostum. Blikastúlkur hafa unnið síðustu fjóra leiki sína og markatalan í þeim leikjum 13-2.
Þór/KA er í efsta sæti með 41 stig og tekur á móti FH sem er í 6.sæti en FH hefur verið að spila vel að undanförnu og vann til að mynda Val 2-0 í síðustu umferð.
Breiðablik er með 39 stig og tekur á móti Grindavík sem er í 7.sæti en Grindavík gerði sér lítið fyrir og vann Þór/KA í síðustu umferð.
Það er því ljóst að mikil spenna verður í leikjum dagsins en þeir hefjast klukkan 16.15. Sá leiktími hefur verið harðlega gagnrýndur af mörgum og meðal annars bent á hvort síðasta umferð Pepsídeildar karla yrði leikin á tveimur dögum með fjórum misumandi leiktímum, þ.e.a.s. í dag hefjast tveir leikir eins og áður sagði klukkan 16.15 og svo mætast Haukar og ÍBV klukkan 17.30. Á morgun leika svo Fylkir og Stjarnan klukkan 16.15 og Valur tekur á móti KR klukkan 17.00.
Fyrir utan þessa fjóra mismundandi leiktíma hefur einnig verið bent á að leikirnir fara fram á virkum dögum, ekki um helgar líkt og lokaumferð Pepsídeildar karla er ávallt leikin. Eitt er ljóst að þetta verður að laga á næstu leiktíð svo jafnréttis sé gætt.
En aftur að leikjunum tveimur sem ráða úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. Mikil stemning er á Akureyri fyrir leik Þórs/KA gegn FH og áskorun gengur um bæinn til fyrirtækja að gefa frí svo fólk komist á völlinn til að styðja sínar stúlkur. Áfram íslensk kvennaknattspyrna.

Deila