Pepsideild karla | Willum hættir með KR

Willum Þór Þórsson, sem stýrt hefur karlaliði KR í knattspyrnu síðan um mitt síðasta sumar, hefur ákveðið að bjóða sig fram til Alþingis fyrir Framsóknarflokkinn og lætur því af starfi þjálfara KR. Þetta kemur fram á vefsíðunni 433.is.

Willum, sem er margsigldur bæði sem leikmaður og þjálfari og hefur fagnað ófáum titlum á farsælum ferli, tók við KR í erfiðri stöðu á síðustu leiktíð, en náði þeim magnaða árangri að skila félaginu í Evrópusæti. Ekki náðist sami árangur á yfirstandandi leiktíð, þegar einni umferð er ólokið er ljóst að KR á ekki möguleika á Evrópusæti og herma sögur að stokkað verði upp í herbúðum félagsins.
Ljóst er að nýr maður verður í brúnni í upphafi næstu leiktíðar þar sem Willum fer í framboðsslag, en sem kunnugt er verður kosið til Alþingis undir lok októbermánaðar. Willum sat á þingi sem fulltrúi Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi frá 2013 til 2016 og var varaþingmaður frá því í febrúar og fram í júní á þessu ári.

Deila