Pepsideild karla | Fellur Víkingur Ó á sunnudag?

Næstsíðasta umferð Pepsídeildar karla fer fram á sunnudag. Leikirnir hefjast allir klukkan 14.00 og aðal spennan er í fallbaráttu deildarinnar en nokkuð víst er að Stjarnan og FH verða í sætum tvö og þrjú og þar með í forkeppni Evrópudeildarinnar að ári.
ÍA er fallið, er með 15 stig í neðsta sæti en þar fyrir ofan koma fjögur lið í fallhættu.
Víkingur Ólafsvík er í verstu stöðunni með 20 stig í næstneðsta sæti og á eftir að leika á heimavelli gegn FH og á útivelli gegn fallliði ÍA. Líklegt má telja að Víkingur fái að minnsta kosti þrjú stig úr þessum leikjum.
Fyrir ofan Víking Ólafsvík í 10.sæti eru bikarmeistarar ÍBV með 22 stig en þeir eiga eftir að leika á útivelli við Breiðablik og heima gegn KA.
Fjölnir og Breiðablik eru í 9. og 8.sæti með 24 stig. Blikar eiga eftir ÍBV heima og FH á útivelli en Fjölnir sem vann FH í gær 2-1 á eftir heimaleik gegn KR og útileik gegn Grindavík.
Á þessu má sjá að mikil spenna er í fallbaráttu Pepsideildar karla og svo gæti farið að markahlutfall felldi lið, en Víkingur Ólafsvík er með langversta markahlutfallið af þeim liðum sem eru að reyna að forðast fall í Inkasso-deildina.

Deila