Pepsideild karla | Ágúst Gylfason ráðinn þjálfari Breiðabliks

Mynd: breidablik.is

Ágúst Gylfason, sem undanfarin ár hefur þjálfað karlalið Fjölnis í knattspyrnu, hefur verið ráðinn þjálfari Breiðabliks til næstu þriggja ára. Frá þessu er greint á heimasíðu Breiðabliks.

Í tilkynningu Blika segir:
Ágúst Gylfason hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu hjá Breiðabliki. Samningurinn er til þriggja ára. Ágúst hefur mikla reynslu að því að vinna með ungum leikmönnum og byggja upp lið sem er er góð blanda þeirra og reyndari leikmanna. Sú reynsla mun án efa nýtast Breiðablik vel en hann er líka félaginu vel kunnur sem foreldri og sjálfboðaliði í starfinu.
Ágúst hefur verið hjá Fjölni í 10 ár, fyrst eitt ár sem leikmaður, þá 3 ár sem aðstoðarþjálfari og síðastliðinn 6 ár sem aðalþjálfari.
Stjórn Knattspyrnudeildar býður Ágúst hjartanlega velkominn til starfa hjá Breiðabliki.

Ágúst Gylfason er 46 ára og á að baki farsælan feril, bæði sem leikmaður og þjálfari. Hann lék á sínum tíma með Val, Fram, KR og Fjölni hér heima og Brann í Noregi og hefur þjálfað Fjölni undanfarin sex ár.

Ágúst er þriðji þjálfari Blika frá upphafi nýliðinnar leiktíðar; Arnar Grétarsson stýrði liðinu tvær fyrstu umferðirnar og brotthvarf hans kom mörgum á óvart. Milos Milojevic tók við keflinu og stýrði Breiðabliki til loka leiktíðar, en Blikar urðu í sjötta sæti Pepsideildar karla. Tilkynnt var á dögunum að Milojevic yrði ekki við stjórnvölinn á næstu leiktíð og arftaki hans er nú fundinn.

Deila