Olísdeild karla | FH og ÍBV tryggðu sér sæti í undanúrslitum

FH og ÍBV hafa tryggt sér sæti í undanúrslitum Olísdeildar karla í handknattleik, fóru bæði nokkuð sannfærandi í gegnum 8-liða úrslitin þar sem FH vann Aftureldingu í dag 27-23 og ÍBV hafði betur gegn ÍR 30-26 í leik þar sem dómararnir veifuðu rauða spjaldinu eigi sjaldnar en fjórum sinnum. FH og ÍBV unnu bæði viðureignir sínar 2-0.

Afturelding fór vel af stað í leik sínum gegn FH í dag, Hafnfirðingar komust ekki á blað fyrr en eftir um það bil sex mínútna leik, en hægt og bítandi náðu þeir svarthvítu betri tökum á leiknum. FH hafði fjögurra marka forystu í hálfleik, 14-10. Mosfellingar voru í raun aldrei líklegir til að sauma að þessari forystu FH-inga í síðari hálfleik og réðu lítið við Ásbjörn Friðriksson, sem skoraði 11 mörk í leiknum og tók hvað eftir annað af skarið þegar á þurfti að halda. Fjögurra marka sigur FH-inga staðreynd og sætið í undanúrslitum tryggt.
Leikur ÍR og ÍBV var skrautlegur í meira lagi; þrír ÍR-ingar og einn Eyjamaður fengu að líta rauða spjaldið og fámennið hafði sín áhrif. Leikurinn var í járnum framan af, en Sturla Ásgeirsson var fyrstur til að líta rautt fyrir að kasta boltanum í andlitið á Aroni Rafni Eðvarðssyni, markverði ÍBV, úr vítakasti. Eyjamenn náðu hægt og bítandi tökum á leiknum og höfðu fjögurra marka forystu í hálfleik, 16-12. Eyjamenn tók kipp snemma í síðari hálfleik og náðu mest sjö marka forystu, en eftir um tíu mínútna leik hófust spjaldalyftingar. Elliði Snær Viðarsson, Eyjamaður, fékk að líta rauða spjaldið fyrir brot á Elíasi Bóassyni, fimm mínútum síðar fauk ÍR-ingurinn Halldór Logi Árnason útaf fyrir brot á Róberti Aroni Hostert og strax í kjölfarið fékk liðsfélagi hans Þrándur Gíslason Roth að líta rauða spjaldið fyrir brot á Grétir Þór Eyþórssyni. Þegar spjaldasýningin var um garð gengin sigldu Eyjamenn öruggum sigri í höfn, 30-26, og bókuðu þar með sætið í undanúrslitum.

Olísdeild karla | 8-liða úrslit | Leikur 2
Afturelding 23-27 FH (10-14)
Mörk Aftureldingar: Mikk Pinnonen 8, Birkir Benediktsson 4, Ernir Hrafn Arnarson 3, Gestur Ólafur Ingvarsson 3, Böðvar Páll Ásgeirsson 3, Gunnar Kristinn Þórsson 1, Kristinn Hrannar Bjarkason 1.
Varin skot: Lárus Helgi Ólafsson 11, Kolbeinn Aron Ingibjargarson 2.
Mörk FH: Ásbjörn Friðriksson 11, Arnar Freyr Ársælsson 5, Óðinn Þór Ríkharðsson 4, Einar Rafn Eiðsson 3, Gísli Þorgeir Kristjánsson 2, Jón Bjarni Ólafsson 2.
Varin skot: Ágúst Elí Björgvinsson 13.
ÍR 26-30 ÍBV (12-16)
Mörk ÍR: Bergvin Þór Gíslason 9, Kristján Orri Jóhannsson 6, Orri Freyr Þorkelsson 4, Þrándur Gíslason Roth 2, Björgvin Hólmgeirsson 2, Elías Bóasson 1, Davíð Georgsson 1, Aron Örn Ægisson 1.
Varin skot: Grétar Ari Guðjónsson 9.
Mörk ÍBV: Kári Kristján Kristjánsson 9, Agnar Smári Jónsson 5, Theodór Sigurbjörnsson 5, Dagur Arnarsson 3, Grétar Þór Eyþórsson 2, Sigurbergur Sveinsson 2, Andri Heimir Friðriksson 1, Elliði Snær Viðarsson 1, Róbert Aron Hostert, Aron Rafn Eðvarðsson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 11.

Deila