Olís-deild karla | Íslandsmeistararnir úr leik – Selfoss í undanúrslit

Nú er ljóst hvaða lið eru komin í undanúrslit um Íslandsmeistaratitilinn í Olís-deild karla í handknattleik en Selfoss og Haukar tryggðu sig þangað í kvöld.

Haukar unnu fyrsta leikinn gegn Val eftir að hafa verið fimm mörkum undir í hálfleik en liðið vann 22-20. Haukar mættu mun ferskari til leiks í kvöld og voru með leikinn í höndum sér allan leikinn.

Haukar voru sex mörkum yfir í hálfleik, 12-6. Liðið hélt áfram að gera góða hluti í þeim síðari og voru töluvert betri en Íslandsmeistararnir. Haukar því áfram eftir öruggan 29-19 sigur og liðið komið í undanúrslitin.

Adam Haukur Baumruk var markahæstur með 7 mörk en Björgvin Páll Gústavsson varði eins og berserkur og var með 19 varða bolta, þar af tvö víti.

Selfoss er einnig komið í undanúrslitin eftir að hafa unnið Stjörnuna, 30-28, en Hergeir Grímsson fór á kostum og var með 10 mörk fyrir gestina. Stjörnumenn því úr leik en liðin sem leika í undanúrslitum eru FH, ÍBV, Haukar og Selfoss.

Úrslit og markaskorarar:

Haukar 29-19 Valur (12-6)
Mörk Hauka: Adam Haukur Baumruk 7, Daníel Þór Ingason 6, Heimir Óli Heimisson 5, Leonharð Þorgeir Harðarson 4, Hákon Daði Styrmisson 3, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 2, Atli Már Báruson 1, Tjörvi Þorgeirsson 1.
Mörk Vals: Anton Rúnarsson 5, Sveinn Aron Sveinsson 5, Vignir Stefánsson 2, Magnús Óli Magnússon 2, Ólafur Ægir Ólafsson 3, Ýmir Örn Gíslason 2.

Stjarnan 28-30 Selfoss (16-13)
Mörk Stjörnunnar: Leó Snær Pétursson 7, Egill Magnússon 7, Aron Dagur Pálsson 6, Ari Magnús Þorgeirsson 4, Garðar Benedikt Sigurjónsson 2, Andri Hjartar Grétarsson 2.
Mörk Selfoss: Hergeir Grímsson 10, Teitur Örn Einarsson 6, Einar Sverrisson 4, Haukur Þrastarson 3, Elvar Örn Jónsson 2, Atli Ævar Ingólfsson 2, Árni Steinn Steinþórsson 1, Sverrir Pálsson 1.

Deila