NBA | Markkanen reynir að kenna liðsfélögum sínum finnsku | Myndband

Lauri Markkanen hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir leik sinn með Chicago Bulls í NBA-deildinni í körfuknattleik, en þessi tvítugi Finni er glæsilegur fulltrúi nýrrar kynslóðar körfuboltamanna; hann er 213 sentimetrar á hæð, býr að snerpu, mýkt og boltatækni sem stenst flestan samanburð og er hin ágætasta skytta. Markkanen skorar tæp 16 stig að meðaltali í leik og tekur rúm 7 fráköst og lítur á löngum köflum út eins og maður sem spilað hefur í NBA-deildinni um árabil, en hann gekk til við Bulls í júlí í fyrra.

Markkanen er eins og áður segir Finni og engum blöðum er um það að fletta að finnska tungumálið getur reynst tungubrjótur hinn mesti, er erfitt að skilja og jafnvel enn erfiðara er að læra. Markkanen brá á leik með nokkrum liðsfélögum í Chicago Bulls fyrir skemmstu, reyndi að kenna þeim nokkur orð í finnsku og útkoman er drepfyndin. Næstum því of fyndin.

Deila