NBA | Derrick Rose kominn í sjálfskipað frí | Leggur skóna hugsanlega á hilluna

Mynd: NordicPhotos/Getty

Derrick Rose, sem á sínum tíma var einn öflugasti og áhugaverðasti leikmaðurinn í NBA-deildinni í körfuknattleik, er kominn í sjálfskipað og ótímabundið frí og íhugar að sögn mjög alvarlega þann möguleika að leggja skóna á hilluna. Rose gekk til liðs við Cleveland Cavaliers fyrir yfirstandandi leiktíð, en þrálát meiðsli og miskunnarlaus gagnrýni eru sögð taka sinn toll.

Derrick Rose er 31 árs og heimaliðið hans, Chicago Bulls, valdi hann með fyrsta valrétti nýliðavalsins árið 2008. Rose var í sína tíð magnaður leikmaður, var valinn nýliði ársins 2009 og leikmaður ársins í NBA-deildinni tveimur árum síðar, sá yngsti sem hlotnast hefur sá heiður. Meiðslavandræði hans hófust þegar hann sleit krossband árið 2012 og meiðslasagan er í raun ótrúleg, Rose hefur þurft að fara í ótal aðgerðir, mestmegnis vegna meiðsla á hnjám og ökklum, en til að toppa allt kinnbeinsbrotnaði hann fyrir tveimur árum og skaddaði augnbotn þannig að fjarlægðarskynið er brenglað og sjónin oftar en ekki óskýr. Þessi meiðsli öll hafa skiljanlega haft áhrif á bæði líkamlega getu og ekki síður andlega líðan. Rose lék með New York Knicks á síðustu leiktíð og nokkra athygli vakti að hann lét sig hverfa um mitt tímabil, mætti hreinlega ekki á tilsettum tíma í leik og í ljós kom að hann hafði brugðið sér heim til Chicago án þess að láta kóng eða prest vita. Skýringin á þessu hvarfi var sú að hann hefði þurft að sinna fjölskyldutengdum málum.

Rose gekk eins og áður segir til liðs við Cleveland Cavaliers fyrir yfirstandandi leiktíð og leikur þar með ekki ómerkari mönnum en LeBron James og Dwayne Wade. Sérfræðingar velta því fyrir sér hvort leikstíll Rose henti Cavs, hann er leikstjórandi sem helst vill hafa boltann í höndunum og er alla jafna með stigahæstu mönnum, snjall gegnumbrotsmaður en ekkert sérstök skytta. Spekingum leiðist ekki að benda á þá staðreynd að með Rose inni á vellinum tapa Cavs með 12.6 stiga mun að meðaltali fyrir hverjar hundrað sóknir. Stöðug gagnrýni og nýtilkomin ökklameiðsli hafa nú orðið til þess að Rose hefur tekið sér ótímabundið frí og er sagður velta því alvarlega fyrir sér að segja upp samningi sínum við Cavs og leggja skóna á hilluna. Haft er eftir ónafngreindum vini að nýjustu meiðslin hafi hreinlega brotið hann endanlega.
Fari svo að Rose leggi skóna á hilluna lýkur einum áhugaverðasta ferli NBA-deildarinnar, ferli sem spannaði allt litrófið og bauð upp á hæðir og lægðir. Þá hefur verið sérstaklega tekið til þess að hætti Rose að spila körfubolta þurfi hann að segja sig frá risasamningi við íþróttavöruframleiðandann Adidas, samningi sem á að geta tryggt honum 80 milljónir dollara, um átta og hálfan millarð króna, á næstu sjö árum. Rose gekk að þessum samningi fyrir sex árum og hefur nú þegar haft af honum ágætar tekjur. Málið snýst hins vegar ekki um peninga, heldur líkamlega og andlega endingu.

Deila