NBA | Celtics enn efstir á styrkleikalistanum | Rockets upp fyrir Warriors

Mynd: NordicPhotos/Getty

Boston Celtics eru í efsta sæti vikulegs NBA-styrkleikalista ESPN aðra vikuna í röð, en sérfræðingar stöðvarinnar taka tillit til árangurs og framlags þegar þeir setja listann saman. Houston Rockets hafa sætaskipti við NBA-meistara Golden State Warriors í öðru og þriðja sæti. Portland TrailBlazers læða sér inn á lista tíu efstu liða og sömu sögu er að segja hinu bráðefnilega liði Philadelphia 76ers.

NBA-styrkleikalisti ESPN | 10 efstu sætin
1.sæti | Boston Celtics | 18-3 | (1)
Það þótti tíðindum sæta að Celtics töpuðu leik í nýliðinni viku, máttu játa sig sigraða gegn Miami Heat, en þetta var aðeins þriðji tapleikur liðsins á leiktíðinni. Boston hefur unnið 18 af 21 leik í níunda sinn og í fyrsta sinn í níu ár. Kyrie Irving spilar eins og sá sem valdið hefur; hefur skorað a.m.k. 20 stig og nýtt rúmlega helming skota sinn í fimm leikjum í röð.
2.sæti | Houston Rockets | 15-4 | (3)
Stóra spurningin í upphafi leiktíðar var sú hvort Chris Paul og James Harden gætu þrifist sem samherjar. Stutta svarið…já. Rockets hafa unnið leikina fimm sem Chris Paul hefur spilað með 18.8 stiga mun að meðaltali. Gefum okkur tíma til að melta það. Houston hefur unnið ellefu leiki með fimmtán stiga mun eða meira, en það er árangur sem ekki hefur sést í deildinni síðan á haustmánuðum 1969. New York Knicks náðu þá þessum ágæta árangri og stóðu uppi sem NBA-meistarar að vori.
3.sæti | Golden State Warriors | 15-5 | (2)
Nú er allt í einu komin upp sú staða að spekingar velta því fyrir sér hvort Warriors eru hreinlega betri án Kevin Durant. Hann hefur verið frá vegna meiðsla og Warriors unnu tvo síðustu leiki sína með samtals 64 stiga mun. Þeir hafa unnið nítján síðustu leiki sem Durant hefur misst af. Vinningshlutfallið án Durant er 84.6%, en 81.7% með hann innaborðs. Stigahlutfallið án Durant er +12.2, án Durant +11.7. Gæti verið að stjörnubjarminn í Oakland sé einfaldleg of bjartur?
4.sæti | San Antonio Spurs | 12-7 | (4)
Spurs malla í rólegheitunum og það vita það allir að Popovich og hans menn eflast eftir því sem á líður. Tony Parker hefur ekki spriklað á þessari leiktíð vegna meiðsla, en hann er væntanlegur á parketið aftur í upphafi vikunnar, jafnvel í heimaleik gegn Dallas í kvöld. Þótt Parker sé kominn af allra léttasta skeiðinu og hafi á síðustu leiktíð skilað fæstum stigum og stoðsendingum að meðaltali síðan á nýliðaárinu sínu er hann enn einn af úrræðabestu og áreiðanlegustu leikstjórnendum deildarinnar.
5.sæti | Cleveland Cavaliers | 12-7 | (8)
Cavs hafa svarað efasemdarröddum með því að vinna sjö leiki í röð. LeBron James staðfestir enn og aftur að hann er hugsanlega besti körfuboltamaður allra tíma. James er á fimmtándu leiktíð sinni í NBA og hefur hæstu framlagstöluna í deildinni, 30.6. Þetta er þriðja besta framlagstalan hans frá upphafi (á þessum tímapunkti), í þau tvö skipti sem hann hefur náð betri framlegð var hann valinn leikmaður ársins. Framlagstalan hans í fjórða leikhluta er á mörkum þess að vera mennsk, 45.1. Árangur Cavs (lesist James) er áhugaverður í ljósi þess að Derrick Rose er í fríi og hugsanlega hættur og Isiah Thomas glímir enn við sín meiðsli.
6.sæti | Detroit Pistons | 12-6 | (7)
Pistons hefur ekki gengið svona vel í upphafi leiktíðar síðan 2007, þá var árangurinn eftir átján leiki 13-5. Á vormánuðum 2008 léku þeir til úrslita í Austurdeildinni, en hvort árangurinn fyrir tíu árum er vísbending um það sem koma skal á þessari leiktíð skal ósagt látið. Pistons keyra á sterkri liðsheild, Andre Drummond tekur flest fráköst í deildinni (15.6) og Tobias Harris, Avery Bradley og Reggie Jackson eru í hópi áhugaverðustu leikmanna deildarinnar.
7.sæti Toronto Raptors | 12-7 | (5)
Raptors hikstuðu aðeins í vikunni, töpuðu tveimur leikjum í röð og stefndu í þriðja tapið gegn arfaslöku liði Atlanta Hawks. Raptors unnu annan leikhlutann gegn Hawks með 25 stiga mun, sem er þriðji stærsti leikhlutasigurinn í sögu félagsins. Raptors skarta stórbrotnu bakvarðarpari í Kyle Lowry og DeMar DeRozan, Litháinn Jonas Valanciunas kemur þægilega á óvart og Serge Ibaka er þögul hetja.
8.sæti | Portland TrailBlazers | 12-8 | (11)
Blazers skarta áhugaverðu bakvarðarpari í Damian Lillard og CJ McCollum og Bosníumaðurinn Jusuf Nurkic er vaxandi miðherji sem bæði skorar og hirðir fráköst. Þessir þrír skoruðu samtals 89 stig í sigurleiknum gegn Brooklyn Nets á föstudag, hver og einn skoraði 25 stig eða meira og slíkt hefur ekki gerst hjá Blazers síðan 2012.
9.sæti | Philadelphia 76ers | 11-7 | (14)
Sixers eru að fullorðnast og ef rétt verður á spilum haldið verður þetta lið átakanlega gott innan fárra ára. Joel Embiid og Ben Simmons verða betri með hverjum leiknum, dyggilega studdir af Robert Covington og ofurskyttunni JJ Redick. Sixers settu 130 stig í grillið á Orlando Magic um helgina og hafa ekki skorað annað eins í leik síðan 1994. Redick setti niður átta þriggja stiga skot, reyndar í annað sinn á þessari leiktíð. Framtíðin er björt. Mjög björt.
10.sæti | Minnesota Timberwolves | 12-8 | (6)
Timberwolves eru, í fyrsta sinn í nokkur ár, spennandi og áhugaverðir. Karl-Anthony Towns þroskast vel og Andrew Wiggins, Jimmy Butler, Jeff Teague, Taj Gibson og Jamal Crawford hafa allir staðið fyrir sínu. Á miðvikudaginn er áhugaverður leikur þegar Wolves mæta New Orleans Pelicans í uppgjöri stóru strákanna úr Kentucky-háskólanum; Towns gegn Anthony Davis og DeMarcus Cousins. Davis og Cousins skora meira, bera sóknarleik Pelicans í raun uppi, og straujuðu yfir Towns síðast þegar liðin mættust. Towns skorað aðeins tvö stig í leiknum, en Timberwolves fögnuðu engu að síður sigri.

Deila