Mizunodeild kvenna | Þróttur N. sigraði Aftureldingu 3-1 | Komnar í 1-0

Mynd: Jóhanna Kr. Hauksdóttir

Þróttur Nes og Afturelding mættust í kvöld í fyrsta úrslitaleik Mizunodeildar kvenna. Leikið var á heimavelli Þróttar í Neskaupstað.Heimakonur í Þrótti hófu leikinn frábærlega og settu mikla pressu á gestina úr Mosfellsbæ. Þróttur náði snemma 5 stiga forystu í stöðunni 9-4 en Afturelding komst þá í gang og jafnaði í 12-12. Enn náði Þróttur forskoti en Afturelding gerði vel og jafnaði leikinn aftur í 18-18. Þróttarar voru þó sterkari í lok hrinunnar og sigruðu hana 25-21. Aftur byrjaði Þróttur af krafti í annarri hrinu og náðu þær 5-0 forystu eftir góðar uppgjafir frá Heiðu Elísabetu. Þróttur hélt svo áfram að þjarma að liði Aftureldingar og var 17-10 yfir þegar Afturelding náði aðeins að klóra í bakkann. Þær minnkuðu muninn í 17-14 og virtust vera á góðu skriði en það entist þó ekki lengi og sigraði Þróttur hrinuna sannfærandi, 25-17.

Staðan var þar með orðin 2-0 í hrinum talið og Aftureldingarkonur komnar með bakið upp við vegginn fræga. Í fyrstu tveimur hrinunum hafði Paula Del Olmo Gomez skorað 13 stig fyrir Þrótt Nes en Haley Hampton var atkvæðamest hjá Aftureldingu með 8 stig. Þriðja hrinan hófst á svipaðan hátt og önnur hrinan, en nú var það lið Aftureldingar sem náði 0-5 forystu. Ekki dugði það lengi því Þróttur jafnaði leikinn strax í stöðunni 5-5. Paula Gomez, aðalsóknarmaður Þróttar, átti erfitt uppdráttar í byrjun hrinu og hrönnuðust sóknarmistökin upp. María Bóel Guðmundsdóttir kom inn á völlinn í stað hennar snemma í hrinunni. Afturelding nýtti sér erfiðleika Þróttara og spilaði vel í hrinunni allri. Þróttarar áttu fínan kafla undir lok hrinunnar en það kom þó ekki í veg fyrir sigur Aftureldingar sem vann hrinuna 20-25.

Fjórða hrinan var æsispennandi og ljóst að Afturelding ætlaði sér að knýja fram oddahrinu í þessum leik. Hnífjafnt var með liðunum fram undir miðja hrinu en þá seig lið Þróttar aðeins fram úr. Bæði lið spiluðu af mikilli hörku og var hrinan hin besta skemmtun. Þróttur leiddi 19-14 fyrir lokakaflann en Afturelding gafst ekki upp og náði að minnka muninn í 22-21. Nær komust þær þó ekki því Særún Birta Eiríksdóttir, fyrirliði Þróttar, tryggði liðinu 25-21 sigur með tveimur stigum beint úr uppgjöf. Þróttur vann leikinn því 3-1 og leiðir einvígið nú 1-0.

Paula Del Olmo Gomez skoraði 19 stig fyrir Þrótt og Helena Kristín Gunnarsdóttir bætti við 18 stigum. Haley Rena Hampton var langstigahæst hjá Aftureldingu en hún skoraði 19 stig. Í úrslitaeinvíginu er leikið annan hvern dag og verður næsti leikur því spilaður strax á miðvikudag. Sá leikur fer fram á heimavelli Aftureldingar að Varmá í Mosfellsbæ.

Mizunodeild kvenna | Úrslitaeinvígi | Leikur 1

Þróttur N. 3-1 Afturelding (25-21, 25-17, 20-25, 25-21)

Frétt tekin af blakfrettir.is

Deila