Meistaradeildin | Markaveisla í París – United með annan fótinn í 16-liða úrslitum

Mynd: GettyImages/NordicPhotos

Það var leikið í fjórum riðlum í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í kvöld en Paris Saint-Germain er komið í 16-liða úrslit eftir 5-0 sigur á Anderlecht.

Manchester United er komið með annan fótinn í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar eftir 2-0 sigur á Benfica. Mile Svilar, 18 ára markvörður Benfica, var bæði hetja og skúrkur liðsins en hann varði vítaspyrnu frá Anthony Martial áður en hann gerði svo sjálfsmark.

Nemanja Matic átti þá skot af löngu færi í stöng og þaðan fór boltinn í bakið á Svilar og í netið. Daley Blind gerði síðan annað mark liðsins úr vítaspyrnu sem Marcus Rashford fiskaði. United er því með fullt hús stiga í A-riðli eftir fjórar umferðir. CSKA Moskva vann þá Basel og eru þau lið jöfn að stigum í öðru og þriðja sæti með 6 stig.

PSG er komið í 16-liða úrslitin eftir 5-0 sigur á Anderlecht. Layvin Kurzawa gerði þrennu í síðari hálfleik en þeir Marco Verratti og Neymar höfðu gert tvö mörk í þeim fyrri. Liðið er með fullt hús stiga á toppnum og komið með sæti í 16-liða úrslitum eins og áður segir en í sama riðli vann Bayern München 2-1 sigur á Glasgow Celtic. Kingsley Coman og Javi Martinez gerðu mörk gestanna.

Roma skellti Chelsea í C-riðli, 3-0. Stephan El Shaarawy er áfram funheitur en hann gerði tvö mörk. Diego Perotti gerði þriðja markið og þar við sat. Atlético Madrid og Qarabag gerðu þá óvænt jafntefli, 1-1. Thomas Partey bjargaði andliti Atlético með draumamarki í síðari hálfleik. Roma er í efsta sæti með 8 stig, Chelsea með 7 stig, Atlético 3 stig og Qarabag 1 stig.

D-riðill bauð upp á minnstu skemmtunina. Sporting og Juventus gerðu 1-1 jafntefli þar sem Gonzalo Higuain jafnaði metin á 79. mínútu og þá gerðu Olympiakos og Barcelona markalaust jafntefli. Barcelona leiðir riðilinn með 10 stig en Juventus er í öðru sæti með 7 stig.

Deila