Meistaradeild karla | Árpád Sterbik hlakkar til að spila með Veszprém á ný

Mynd: NordicPhotos/Getty

Serbneski markvörðurinn Árpád Sterbik segist í viðtali á heimasíðu Veszprém vera gríðarlega spenntur fyrir því að spila með félaginu á ný. Sterbik spilaði með liðinu á árunum 2001-2004.

Nú snýrðu aftur til Veszprém næst komandi sumar. Hver er ástæðan fyrir því að þú valdir Vesprém?
Það voru nokkrir möguleikar í stöðunni en ég gat ekki sagt nei þegar kallið kom frá Veszprém. Að keppa í hæsta gæðaflokki er mikilvægt fyrir mig og ég vil enda ferilinn minn í þeim flokki. Þetta hófst allt saman hjá Veszprém og þar fékk ég fyrst tækifæri til þess að spila í Meistaradeildinni. Veszprém er eitt af bestu liðum Evrópu og þess vegna var enginn vafi hjá mér að ganga til liðs við félagið.

Þú spilaðir með Veszprém á árunum 2001-2004. Hvernig lítur þú til baka til þeirra ára og hvaða minningar hefur þú frá þessum árum?
Veszprém var mitt fyrsta atvinnumannafélag þar sem ég gat spilaði í alvöru deild og í Meistaradeildinni. Það var gríðarleg reynsla sem ég öðlaðist á þessum árum. Ég var hluti að frábærum hópi sem náði allaleið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Minnistæðast er þó allir leikirnir við Pick Szeged.

Nú hefur þú spilað nokkrum sinnum í Veszprém Arena, þar sem áhorfendur hafa alltaf tekið þér vel. Hvaða minningar átt þú frá þessum leikjum?
Mér finnst alltaf gaman að koma til Veszprém og ég eyði frítíma mínum oft í borginni. Ég á marga vini og kunningja hér frá þeim árum sem ég spilaði hérna. Mér hefur alltaf fundist ég vera eins og heima hjá mér þegar ég kem til Veszprém og þess vegna elska ég að koma í höllina. Áhorfendur hafa alltaf tekið vel á móti mér. Ég hef átt góða og slæma leiki hérna en áhorfendur hafa alltaf verið góðir við mig alveg sama hvað gengur á. Mér líkar það vegna þess að það segir mér að þeir bera virðingu fyrir mér.

Þú fagnaðir 38 ára afmæli þínu þann 20.nóvember og ert enn í toppformi sem þú sýndir svo sannarlega þegar þú bjargaðir stigi fyrir Vardar gegn Rhein-Neckar Löwen á síðustu sekúndu. Hvert er leyndarmálið á bak við það að halda sér í hæsta gæðaflokki?
Hvatningin er mér mikilvæg. Það er mun erfiðara að halda henni hjá minna félagi þar sem markmiðin eru ekki nógu háleit, ég gæti ekki haldið þessum gæðum í þannig umhverfi. Það er einnig mikilvægt fyrir leikmann að komast hjá meiðslum. Til allrar hamingju hef ég náð að vera laus við þau á síðari árum. Hins vegar er mikilvægast fyrir mig að halda andlegri heilsu og finna alltaf hvatningu. Ég hef spilað í Meistaradeildinni í 17 ár og ég hef alltaf reynt að einbeita mér að næsta leik. Ég hef alltaf reynt að halda ákveðnum gæðum til að sanna mig fyrir mér sjálfum, fjölskyldu minni, félaginu mínu og ekki síst áhorfendum. Ég hef mikinn vilja til þess að sanna mig og það er það sem heldur mér í þessum gæðaflokki. Mig hungrar alltaf í árangur. Þegar ég kom til Vardar hafði ég það að markmiði að verða betri með hverju árinu. Viljinn til þess að vinna allt er enn ríkur í mér og það er það sem hvetur mig áfram.

Alla í Veszprém dreymir um að vinna fyrsta Meistaradeildartitilinn. Þú hefur unnið hann fjórum sinnum og nú síðast í júní 2017. Hvern telur þú vera lykilinn að því að hampa titlinum eftirsótta?
Þú verður að spila vel allt tímabilið vegna þess að staða þín eftir riðlakeppnina mun hafa mikil áhrif á leið þína til Kölnar. Fyrir mér er það mikilvægasta á hverju ári að komast í Final4, vegna þess þegar þú ert kominn þangað getur þú farið að spá í hvernig þú vinnur titilinn. Öll lið styrkjast á milli ára og þú ert aldrei öruggur um að komast í topp 4. Final4 helgin er í raun 24 tíma mót þar sem þú þarft að vera vel andlega undirbúinn og verður að hafa öfluga liðsheild. Ofan á það verður þú svo að forðast meiðsli þessa 2 daga vegna þess að það er í raun bara mark til eða frá sem sker úr um hvaða lið verður meistari.

Þú hefur unnið til margra verðlauna, bæði með liðum þínum og sem einstaklingur. Hvaða verðlaun eru þér kærust?
Í hvert skipti sem þú vinnur eitthvað í fyrsta skiptið verður sá sigur sá minnistæðasti. Það er skemmtilegast þegar þú upplifir árangur í fyrsta sinn. Þannig að fyrir mér er sigurinn með Ciudad Real sá eftirminnilegasti. Því fleiri sem titlanir verða þá minnkar eftirvæntingin bæði hjá liðinu og áhorfendum þess.

Segðu okkur aðeins frá sjálfum þér fyrir þá sem þekkja þig ekki frá fyrri tíð hjá Veszprém. Hvernig myndir þú lýsa sjálfum þér bæði innan sem og utan vallar. Hvað finnst þér gaman að gera í frítímum?
Ég eyði oftast frítíma mínum í rólegheitum heima en þegar krakkarnir koma heim úr skólanum þá færist fjör í leikinn. Ég er mjög afslappaður bæði innan og utan vallar. Eðlilega verð ég nú samt stundum kvíðinn í einhverjum aðstæðum inni á vellinum en utan hans er ég mjög afslappaður. Ég hef í raun engin áhugamál þar sem líf mitt snýst um handbolta. Ég horfi mikið á handbolta og þá aðallega leiki með gömlum liðsfélögum.

Hver eru þín skilaboð til áhorfenda Veszprém?
Veszprém mun reyna allt til þess að ná árangri í framtíðinni. Ég mun leggja mig allan fram í hverjum einasta leik. Það getur þýtt 5 varin skot í einum leik og það getur þýtt 20 skot í öðrum. Auðvitað yrði ég glaðari með síðari útkomuna en það er samt mikilvægast fyrir mig að fara heim með sigur í farteskinu. Ég mun reyna mitt allra besta til þess að hjálpa Veszprém að ná markmiðum sínum og að ná góðum úrslitum fyrir liðið. Áhorfendur liðsins hafa stutt rækilega við bakið á liðinu undanfarin ár og ég vona svo innilega að þeir haldi því áfram um ókomna tíð. Þeir veita liðinu auka kraft þegar á reynir.

Deila