Ítalski boltinn | Walter Zenga að taka við Crotone

Mynd: GettyImages/NordicPhotos

Ítalska knattspyrnufélagið Crotone er við það að ganga frá samningum við Walter Zenga en hann mun taka við liðinu af Davide Nicola. Þetta herma heimildir Sky Italia.

Nicola sagði af sér á dögunum þrátt fyrir ágætis árangur með liðið. Hann kom liðinu upp í Seríu A fyrir síðasta tímabil og tókst að halda liðinu í deild þeirra bestu. Hann var hins vegar óánægður með uppákomu sem átti sér stað í 3-0 tapinu gegn Udinese á dögunum er forseti félagsins kom inn í búningsklefa liðsins í hálfleik og urðaði yfir liðið.

Margir þjálfarar hafa verið í umræðunni síðustu daga en Alessandro Nesta, fyrrum leikmaður AC Milan, hefur meðal annars verið nefndur í umræðuna.

Sky Italia greinir hins vegar frá því í kvöld að Walter Zenga hafi samþykkt að taka við liðinu en hann hefur þjálfað Catania, Palermo og Sampdoria. Hann var síðast knattspyrnustjóri Wolves á Englandi en var rekinn í október á síðasta ári.

Deila