Ítalski boltinn | UEFA sagt ætla að hafna tillögum eigenda Milan | Þungar refsingar yfirvofandi

Mynd: NordicPhotos/Getty

Ítölsku íþróttamiðlarnir La Gazzetta dello Sport og Corriere dello Sport telja sig hafa heimildir fyrir því að forráðamenn Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, hafi hafnað tillögum eigenda ítalska stórliðsins AC Milan um fjárhagslega ábyrgð og niðurgreiðslu lána á næstu árum og að höfnunin verði tilkynnt formlega á morgun, föstudag. Reynist þessar fregnir á rökum reistar eiga forráðamenn Milan yfir höfði sér þungar refsingar, m.a. sektir, takmarkanir á leikmannaviðskiptum og jafnvel bann við þátttöku á Evrópumótum.

Forráðamenn AC Milan drógu það fram í lengstu lög að leggja fyrir forráðamenn UEFA tilskildar áætlanir og yfirlit fjármála, en gengu nokkuð keikir af fundi sambandsins í október og töldu sig hafa lagt fram gögn sem sýndu fram á fjárhagslega ábyrgð og ágætar framtíðarhorfur. Aleksander Ceferin, forseti UEFA, sló þó talsvert á bjartsýnina þegar hann lét hafa það eftir sér í liðnum mánuði að hann hefði „áhyggjur af“ framlögðum tillögum Milan-manna. Á meðan á öllu þessu hefur staðið berast sífellt skýrari og nákvæmari fregnir af vafasömum viðskiptaháttum nýs eiganda Milan, Yonghong Li, sem virðist hafa farið mjög óhefðbundnar leiðir við fjármögnun kaupanna á félaginu.
Ef heimildir ítölsku íþróttamiðlanna eru réttar og UEFA hafnar tillögum og hugmyndum forráðamanna Milan blasa við nokkuð þungar refsingar. Sektir og jafnvel takmarkanir á leikmannaviðskiptum í tiltekinn tíma eru taldar líklegastar, í versta falli verður Milan meinuð þátttaka á Evrópumótum í einhvern tíma.

Lognmolla og ládeyða eru orð sem engan veginn eiga við þegar talið berst að nýjum eigendum AC Milan og athöfnum þeirra. Síðan Li keypti félagið hefur varla liðið sá dagur að eignarhald hans og fjármögnunarleiðir leita í fréttir, en ljósið í myrkrinu kann að vera S-Arabíski milljarðamæringurinn Fawaz Alhokair. Hann hefur lýst yfir áhuga á að kaupa félagið og feykja fjárhagsáhyggjum út í hafsauga. Snörp og örugg handtök gætu forðað þessu sigursæla og sögufræga félagi frá umtalsverðum vandræðum og álitshnekki.

Deila