Ítalski boltinn | Suso verður líklega fyrirliði Milan á morgun

Mynd: NordicPhotos/Getty

Allt útlit er fyrir því að Spánverjinn Suso beri fyrirliðabandið hjá Milan þegar þeir rauðsvört skunda til vallar í stórleikinn gegn Juventus á San Siro á morgun. Leikuinn, sem hefst klukkan 16, verður að sjálfsögðu sýndur beint á SportTV.

Leonardo Bonucci, sem alla jafna er fyrirliði Milan, leikur ekki gegn sínum gömlu félögum á San Siro; hann klárar á morgun tveggja leikja bann sem hann hlaut fyrir að reka olnbogann heldur óvarlega í Aleandro Rosi í leiknum gegn Genoa á dögunum. Lucas Biglia er varafyrirliði og hefði að öllu eðlilegu vafið bandinu um upphandlegginn, en hann á við meiðsli að stríða og kemur nær örugglega ekkert við sögu á morgun. Riccardo Montolivo, sem bar fyrirliðabandið áður en Bonucci mætti á svæðið, hefur ekki gengið að sæti í byrjunarliði vísu og næsta víst má telja að hann sitji á varamannabekknum á morgun, a.m.k. til að byrja með. Þá þykir rökrétt að Suso verði fyrirliði og það gleður margan Milan-manninn að fyrirliðinn sé ekki einn af sumardrengjunum, heldur maður sem þekkir félagið og leikmannahópinn.

Fjarvera Bonucci og óvissa varðandi fyrirliðabandið hefur hrundið af stað umræðum um það hvort varnarmaðurinn snjalli sé sá sem á að bera bandið yfir höfuð. Mörgum þótti það skjóta skökku við að pilti sem nýkominn er til félagsins skyldi falin svo mikil ábyrgð, en þótt Bonucci sé stjórnandi varnarinnar og ágætur leiðtogi hefur hann litla reynslu sem fyrirliði, þá ábyrgð öxluðu Giorgio Chiellini og Claudio Marchisio alla jafna hjá Juventus. Demetrio Albertini, einn miðjuásanna í sigursælu liði Milan fyrri ára, lét hafa það eftir sér að hugsanlega hefði átt að íhuga fyrirliðavalið betur.
„Það er alltaf erfitt að meta svona stöðu“, sagði Albertini í samtali við Sportitalia. „Ég held að Leo hafi verið valinn út frá fyrirsjáanlegu byrjunarliði, maður með hans leiðtogahæfileika er líklega rétti maðurinn til að létta pressunni af Gianluigi Donnarumma og fleiri ungum leikmönnum.“
Uppi var orðrómur um að Albertini myndi taka að sér stjórnunarhlutverk undir stjórn nýrra eigenda hjá Milan. Hann bauð sig fram til forseta ítalska knattspyrnusambandsins fyrir skemmstu og þykir efni í góðan stjórnanda, en sló þó á sögusagnir og vangaveltur um framtíð á San Siro. „Ég las um þetta, en þetta var ekkert annað en orðrómur. Ég hef ekki verið í neinu sambandi við eigendur eða stjórnendur Milan.“

Deila