Ítalski boltinn | Juventus vann toppslaginn gegn Napoli | Roma enn á sigurbraut

Mynd: NordicPhotos/Getty

Ítalíumeistarar Juventus slógu á áhyggjur stuðningsmanna af því að liðið væri að gefa eftir í titilbaráttunni á Ítalíu með því að leggja Napoli að velli í toppslag af bestu gerð í kvöld, 1-0. Gonzalo Higuain, sem á sínum tíma lék með Napoli, skoraði markið sem réði úrslitum á 13.mínútu leiksins. Napoli hefur nú aðeins eins stigs forystu á Juventus á toppi ítölsku A-deildarinnar, Napoli hefur 38 stig og Juventus 37 stig, en þetta var fyrsti tapleikur Napoli á leiktíðinni.
Roma vann SPAL nokkuð örugglega, 3-1, í hinum leik dagsins í ítalska boltanum. Roma var sigurstranglegra fyrirfram og hagur liðsins vænkaðist umtalsvert strax á 9.mínútu þegar Felipe, leikmanni SPAL, var vísað af leikvelli. Stephen El Shaarawy lagði upp tvö af mörkum Roma í leiknum, en enginn lék þó betur en Aleksandar Kolarov, sem kann ákaflega vel við sig í ítölsku höfuðborginni. Roma situr í fjórða sæti með 34 stig og hefur læðst svolítið undir radar því liðið á leik gegn Sampdoria til góða og getur með sigri þar hlammað sér upp að hlið Juventus. SPAL er sem fyrr í átjánda og þriðja neðsta sæti deildarinnar með tíu stig.

Roma 3-1 SPAL
1-0 Edin Dzeko 19.mín.
2-0 Kevin Strootman 32.mín.
3-0 Lorenzo Pellegrini 53.mín.
3-1 Federico Viviani 55.mín.
Felipe (S) – rautt á 9.mín.

Napoli 0-1 Juventus
0-1 Gonzalo Higuain 13.mín.

Deila