Ítalski boltinn | Juventus vann stórveldaslaginn á San Siro

Mynd: NordicPhotos/Getty

Ítalíumeistarar Juventus stóðu uppi sem sigurvegarar í stórveldaslagnum gegn Milan í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu í dag, 2-0. Gonzalo Higuain skoraði bæði mörk gestanna, sitt í hvorum hálfleik, og með sigrinum læddist Juve upp að hlið Napoli á toppi deildarinnar. Bæði lið hafa 28 stig, en Napoli á leik gegn Sassuolo á morgun til góða. Inter situr í þriðja sæti með 26 stig og heimsækir Verona á mánudag.

Leikur Milan og Juventus var hin ágætasta skemmtun og þótt sigur Juventus hafi verið sanngjarn var Milan meira með boltann og átti fleiri heppnaðar sendingar. Heimamenn fengu nokkur ágæt færi til að skora, Nikola Kalinic þrumaði t.a.m. einu sinni í þverslána af stuttu færi, en Juve-menn voru beinskeyttari og áræðnari í sínum aðgerðum. Mörkin tvö sem Higuain skoraði voru augnakonfekt, tvö þrumuskot af dágóðu færi og í því síðara small boltinn í nærstönginni áður en hann söng í netinu.
„Þetta var jafn leikur, okkar leikur var á pari við leik Juventus, en munurinn lá í Higuain sem skoraði tvö frábær mörk“, sagði Vincenzo Montella, stjóri Milan í leikslok. „Við áttum okkar færi, en það eru fáir leikmenn eins og Higuain, fá lið sem skarta svona leikmanni.“

Milan er sex stigum verr statt eftir ellefu leiki í ár en liðið var á sama tímapunkti á síðustu leiktíð og hefur tapað fyrir öllum stóru liðunum. „Við erum að setja saman nýtt lið og höfum staðið stóru liðunum á sporði, ef frá eru taldar fimmtán mínútur gegn Lazio“, sagði Montella. „Það er skammgóður vermir, við verðum að nýta færin okkar betur.“

Í hinum leik dagsins bar Roma sigurorð af Bologna 1-0. Stephan El Shaarawy skoraði eina mark leiksins, gull af marki reyndar, á 33.mínútu. Roma situr í fimmta sæti ítölsku A-deildarinnar með 24 stig, er aðeins fjórum stigum á toppliðunum tveimur, en Bologna er í ellefta sæti með 14 stig.

Milan 0-2 Juventus
0-1 Gonzalo Higuain 23.mín.
0-2 Gonzalo Higuain 63.mín.
Roma 1-0 Bologna
1-0 Stephan El Shaarawy 33.mín.

Deila