Ítalski boltinn | Juventus náði sex stiga forystu á toppnum | Napoli tapaði stigum gegn Milan | Markalaust í borgarslagnum

Mynd: NordicPhotos/Getty

Juventus náði í dag sex stiga forystu á toppi ítölsku A-deildarinnar í knattspyrnu, Serie A, og „gamla konan“ virðist þramma öruggum skrefum í átt að sjöunda meistaratitlinum í röð og þeim þrítugasta og fjórða alls. Juventus vann sannfærandi sigur á Sampdoria á heimavelli í dag 3-0 þar sem Douglas Costa lagði upp öll mörk heimamanna, en Napoli, eina liðið sem veitir Juve samkeppni um meistaratitilinn, gerði markalaust jafntefli við Milan á San Siro.
Fiorentina, sem hafði unnið sex leiki í röð, mátti sætta sig við markalaust jafntefli við SPAL í Flórens, en SPAL er í bullandi fallslag og er aðeins einu stigi frá fallsæti. Verona situr sem fastast í næstneðsta sæti deildarinnar eftir tap gegn Bologna í dag 0-2 og Sassuolo og Benevento skildu jöfn, 2-2. Sassuolo er aðeins fjórum stigum frá fallsvæðinu, en Benevento er við það að staðfesta fall í Serie B. Liðið er 14 stigum frá sextánda sætinu og 18 stig í pottinum.
Lazio og Roma gerðu þá markalaust jafntefli í borgarslagnum í Róm. Leikurinn var mikið fyrir augað þó úrslitin gáfu annað til kynna en Bruno Peres átti besta færi fyrri hálfleiksins er hann skaut í stöng eftir sendingu Radja Nainggolan. Í þeim síðari fékk Stefan Radu að líta rauða spjaldið á 80. mínútu fyrir peysutog en þetta var annað gula spjaldið hans í leiknum. Hann fór líklegast með bænir síðustu mínútur leiksins en Edin Dzeko fékk þrjú mjög góð færi, þar sem hann átti skalla í slá auk þess sem Thomas Strakosha varði meistaralega frá honum. Sergej Milinkovic-Savic átti þá frábæra tilraun á síðustu sekúndu leiksins er hann reyndi skot frá miðju en boltinn fór rétt framhjá markinu. Liðin eru jöfn að stigum eða með 61 stig í 3. og 4. sæti deildarinnar.

Ítalski boltinn | Serie A | 32.umferð
Fiorentina 0-0 SPAL
Milan 0-0 Napoli
Bologna 2-0 Verona
1-0 Simone Verdi 31.mín.
2-0 Adam Nagy 90.mín.
Sassuolo 2-2 Benevento
0-1 Cheick Diabaté 22.mín.
1-1 Matteo Politano 41.mín.
2-1 Matteo Politano 64.mín.
2-2 Cheick Diabaté 73.mín.
Juventus 3-0 Sampdoria
1-0 Mario Mandzukic 45.mín.
2-0 Benedikt Höwedes 60.mín.
3-0 Sami Khedira 75.mín.
Lazio 0-0 Roma
Rautt spjald: 
Stefan Radu (Lazio, ’80)

Deila