Ítalski boltinn | Eigendur Milan í vandræðum

Ítalska stórliðið AC Milan sem er í eigu kínverska fjárfestisins, Yonghong Li, er í miklum vandræðum þessa dagana. Ástæðan er fjármögnun Li á kaupum sínum í félaginu.
Kaup Sino-Europe Sport, sem er í eigu Yonghong Li af Silvio Berslusconi(fyrrum eiganda Milan), gengu í gegn í apríl síðastliðnum en Berlusconi hafði átt félagið í 31 ár. Kaupverðið var 520 milljónir evra(62,3 milljarðar ísl.króna) og að auki þurfti að greiða upp 220 milljón evra skuld(26.2 milljarðar ísl.króna) og svo að borga Fininvest félagi í eigu Silvio Berlusconi 90 milljónir evra(10.9 milljarða ísl.króna). Samtals voru þessi kaup upp á litla 100 milljarða og 430 milljónir íslenskra króna.
Nú er staðan sú hjá Yonghong Li og félögum að þeir eru í miklum vandræðum með að borga af skuldum sínum. Sino-Europe Sport þarf að taka nýtt lán uppá 303 milljónir evra(36.7 milljarða íslenskra króna) og borga upp skuld sína við Elliott Management og lengja í lánstímanum uppí fimm ár. Ef Elliott Management samþykkir ekki þessa skilmála, þ.e.a.s. að lengja lánstímann eða leyfa eigendum Milan að borga upp lánið, þá gæti sú staða komið upp að þeir myndu taka yfir AC Milan.
Samkvæmt fréttum frá Ítalíu að undanförnu er það eitt víst að hinir nýju eigendur AC Milan eru í miklum fjárhagserfiðleikum og í dag var það gefið út að líklega yrði enginn leikmaður keyptur til félagsins í janúar næstkomandi en liðið er í 7.sæti og stefnan var sett fyrir leiktíðina á að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni en fjögur efstu sætin gefa þátttökurétt í keppninni.

Deila