Ítalski boltinn | Del Piero og Gullitt verða innlimaðir í Frægðarhöll ítalska boltans

Mynd: NordicPhotos/Getty

Forráðamenn ítalska knattspyrnusambandsins hafa opinberað að Alessandro Del Piero, fyrrverandi leikmaður Juventus, og Ruud Gullitt, sem átti sín bestu ár í treyju AC Milan, verða innlimaðir í Frægðarhöll ítalska boltans áður en árið er liðið. Frægðarhöll ítalska boltan var sett á stofn árið 2011 og á hverju ári bætast tíu nýir meðlimir í hópinn, fulltrúar tíu flokka. Flokkarnir eru m.a. ítalskur leikmaður, erlendur leikmaður, þjálfari, stjórnandi, eldri hetja og dómari.

Alessandro Del Piero lék með Juventus nánast allan sinn feril, frá 1993 til 2012, og er bæði leikja- og markahæsti leikmaðurinn í sögu félagsins. Del Piero er í guðatölu meðal stuðningsmanna Juventus, en á afrekaskránni eru m.a. 208 mörk í 513 deildarleikjum og urmull titla. Hann lék 91 landsleik fyrir Ítali, skoraði þar 27 mörk og lagði lóð á vogarskálarnar þegar Ítalir urðu heimsmeistarar 2006.
Hollendingurinn Ruud Gullitt lék með AC Milan frá 1987 til 1993 og aftur 1994 og var lykilmaður í ógnarsterku Milan-liði sem sópaði til sín titlum af öllum stærðum og gerðum.
Þjálfarinn sem hlýtur sæti í Frægðarhöllinni að þessu sinni er Osvaldo Bagnoli, maðurinn sem stýrði Verona til meistaratignar árið 1985.
Eldri hetjan sem innlimuð verður að þessu sinni er Bruno Conti, ein af HM-hetjum Ítala 1982. Conti lék nánast allan sinn feril með Roma, fékk viðurnefnið „Borgarstjórinn í Róm“, og stýrir í dag ungmennastarfi félagsins.

Innlimanir í Frægðarhöllina 2017 eru þessar helstar:
Ítalskur leikmaður: Alessandro Del Piero
Erlendur leikmaður: Ruud Gullitt
Þjálfari: Osvaldo Bagnoli
Eldri hetjan: Bruno Conti
Stjórnandi: Sergio Campana

Fyrir er í Frægðarhöllinni hetjur á borð við ítölsku leikmennina Roberto Baggio, Paolo Maldini, Franco Baresi, Fabio Cannavaro, Gianluca Vialli og Giuseppe Bergomi og erlendu leikmennina Michel Platini, Marco Van Basten, Gabriel Batistuta, Diego Armando Maradona, Ronaldo og Falcao. Þá eru þar þjálfararnir Arrigo Sacchi, Marcello Lippi, Giovanni Trapattoni, Fabio Capello, Carlo Ancelotti, Roberto Mancini og Claudio Ranieri og dómararnir Pierluigi Collina, Luigi Agnolin, Paolo Casarin, Cesare Gussoni, Sergio Gonnella, Stefano Braschi og Roberto Rosetti. Eldri hetjurnar eru Gigi Riva, Dino Zoff, Gianni Rivera, Sandro Mazzola, Marco Tardelli og Paolo Rossi og stjórnendurnir Adriano Galliani, Giampiero Boniperti, Massimo Moratti, Giuseppe Marotta, Corrado Ferlaino og Silvio Berlusconi.

Deila