Ítalski boltinn | Allegri þarf að nota nýju vopnin

Mynd: NordicPhotos/Getty

Massimo Allegri, þjálfari Juventus á Ítalíu, vissi það í sumar að hann þyrfti að styrkja liðið og undirbúa það að einhverju leiti fyrir kynslóðaskipti. Það voru margir hlutir sem hann þurfti að pæla í og eitthvað af því hefur heppnast en eftir að hafa gert ágætis hluti á markaðnum þá er furðulegt hvernig hann notar mennina.

Leonardo Bonucci ákvað að yfirgefa Juventus eftir sjö ára veru hjá félaginu. Það var margt sem benti til þess að hann væri ekki ánægður undir stjórn Allegri og stökk á tilboð frá AC Milan. Bonucci átti erfið fyrstu ár hjá Juventus og var oft á tíðum mistækur en eftir að hann lærði betur og betur inn á þá Andrea Barzagli og Giorgio Chiellini þá reyndist þess þriggja manna vörn óstöðvandi.

Allegri fékk því það hlutverk að velja mann inn í vörnina í stað Bonucci og varð Daniele Rugani fyrir valinu. Rugani er uppalinn í Empoli en fór ungur að aldri á láni til Juventus og lék með unglinga- og varaliðinu. Þá var liðið látið æfa og spila sömu taktík og Antonio Conte notaði hjá aðalliðinu, 3-5-2. Rugani náði að aðlagast vel og var keyptur eftir lánið og um leið lánaður aftur til Empoli. Hann lék þar tvö tímabil, eitt í Seríu B og eitt í efstu deild og stóð sig vel.

Allegri fór svo að byggja upp leikmanninn og undirbúa hann fyrir miðvarðarstöðuna enda miðverðirnir komnir á góðan aldur og þurfti hægt og rólega að fara að huga að kynslóðaskiptum. Þegar Bonucci fór þá tók Rugani við og hefur hann staðið vaktina ágætlega.

Það sem þjálfarinn hefur þó verið tregur við að gera er að koma mönnum á borð við Blaise Matuidi, Federico Bernadeschi og Matta De Sciglio inn í byrjunarliðið. Allt eru þetta leikmenn sem eru klárir í hlutverkin.

Matuidi er ætlað að leysa stöðu Sami Khedira en hann mun að öllum líkindum yfirgefa Juventus næsta sumar. Matuidi hefur fengið fáa leiki í byrjunarliðinu til þess að eigna sér stöðuna og þá fær Stephan Lichtsteiner endalaust að halda hægri bakvarðarstöðunni, stöðu sem De Sciglio er meira en tilbúinn til að grípa. Lichtsteiner rennur út á samning næsta sumar og fær ekki framlengingu. Hans tími hjá félaginu er á enda.

Bernadeschi er svo enn einn bitinn sem hefur ekki fengið nægilega mikinn leiktíma. Hann er hraður, með frábæra tækni og getur búið til eitthvað úr engu. Allegri virðist hræddur við að skoða vopnabúrið sitt og hlaða nýju vopnin en ef liðið ætlar ekki að verða undir í toppbaráttu þá þarf hann að innleiða nýju mennina sem gætu skipt sköpum.

Deila