Ítalski bikarinn | Sigur í fyrsta leik hjá Iachini – Hellas Verona vann nágrannaslaginn

Þrír leikir fóru fram í ítalska bikarnum í knattspyrnu í kvöld en Hellas Verona er með montréttinn í Verona eftir að hafa unnið Chievo í vítaspyrnukeppni.

Guiseppe Iachini tók við Sassuolo á dögunum eftir að Christian Bucchi var látinn taka poka sinn en Iachini náði í sigur í fyrsta leik. Sassuolo vann Bari 2:1. Diego Falcinelli kom Sassuolo yfir áður en Nene jafnaði metin fyrir Bari. Matteo Politano skoraði svo sigurmarkið fyrir Sassuolo undir lok leiks.

Chievo og Hellas Verona áttust við í mögnuðum leik. Sergio Pellisier kom Chievo yfir áður en Mohamed Fares jafnaði metin. Meira var ekki skorað í leiknum og fór hann beint í framlengingu. Það var ekkert skorað þar og þurfti því vítaspyrnukeppni til þess að fá út sigurvegara. Hellas Verona vann þar 5-4.

Torino lagði þá Carpi 2:0. Iago Falque og Andrea Belotti skoruðu mörkin og komu Torino örugglega áfram.

Deila