Inkassodeildin | Brynjar Björn ráðinn þjálfari HK

Mynd: NordicPhotos/Getty

Brynjar Björn Gunnarsson verður næsti þjálfari karlaliðs HK í Inkassodeildinni í knattspyrnu samkvæmt heimildum Sport.is. Samkomulag þar að lútandi ku vera í höfn, en Brynjar Björn tekur við keflinu af Jóhannesi Karli Guðjónssyni sem á dögunum var ráðinn þjálfari ÍA.

Brynjar Björn hefur verið aðstoðarþjálfari Stjörnunnar síðan hann lagði skóna á hilluna fyrir þremur árum, en þekktastur er hann væntanlega fyrir leik sinn með KR. Brynjar var atvinnumaður um árabil, lék með félögum á borð við Vålerenga og Moss í Noregi, Örgryte í Svíþjóð og ensku liðunum Stoke City, Nottingham Forest, Watford og Reading. Hann var á sínum tíma dýrasti leikmaðurinn í sögu Stoke.

HK hafnaði í fjórða sæti Inkassodeildarinnar í sumar, varð sex stigum á eftir Fylki og fjórum stigum á eftir Keflavík.

Uppfært: HK hefur staðfest ráðningu Brynjars Björns á heimasíðu sinni. Þar segir nýráðinn þjálfari: „Það er mér mikil ánægja og eftirvænting að þjálfa meistaraflokk karla hjá HK. Félagið náði góðum árangri á síðasta keppnistímabili sem spennandi verður að byggja ofan á. HK er ört vaxandi félag með mikinn fjölda iðkenda og frábæra aðstöðu“ segir Brynjar Björn.

Deila