HM kvenna | Skóþjófur á ferð

Mynd:Jyllands-Posten

Nokkrir leikmenn hollenska liðsins vöknuðu heldur betur upp við vondan draum í morgun þegar þær uppgvötuðu að handboltaskóm þeirra hafði verið stolið. Þær höfðu geymt skóna sína á herbergisganginum á hótelinu eins og venja er á þessum stórmótum. Þessi uppákoma kemur sér eðlilega illa fyrir þessa leikmenn en hollenska liðið er að spila á morgun gegn Þýskalandi í mikilvægum leik sem ákvarðar í hvaða sæti liðin lenda.

„Þetta er eðlilega skrýtið mál að skór hverfi af herbergisganginum að nóttu til. Eitt er að allir leikmenn hafi auka skópar með sér en þeim vantar innleggin og hlífarnar sem voru í skónum. Þetta hefur mjög truflandi áhrif á undirbúning okkar fyrir leikinn gegn Þjóðverjum á morgun,“sagði Helle Thomsen þjálfari hollenska liðsins í viðtali við TV2.

„Þú getur kannski ekki sagt að þeim hafi verið stolið fyrr en þú veist hver hefur stolið þeim. Þeir hurfu að minnsta kosti. Það voru fjórir af okkar leikmönnum sem lentu í þessu auk eins leikmanns frá Serbíu. Til allrar óhamingju eru engar myndavélar á ganginum þannig við getum ekkert séð hver það var sem tók skóna en þetta er hið leiðinlegasta mál,“sagði Thomsen. Helle Thomsen sagði einnig frá því að umræddir leikmenn liðsins hefðu farið í verslunarleiðangur til þess að versla sér nýja keppnisskó.

Holland sem er í fjórða sæti í D-riðli þarf nauðsynlega á sigri að halda í leiknum á morgun til þess að sleppa við Dani og Rússa í 16-liða úrslitunum.

Deila