HM kvenna | Leikir dagsins | Óvenjuleg staða í A-riðli | Barist um þrjú sæti í B-riðli

Mynd: NordicPhotos/Getty

Sex leikir eru á dagskrá heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik í dag, næstsíðasta umferð A- og B-riðla. Þrjú lið hafa þegar tryggt sig áfram úr A-riðli; Rúmenía, Frakkland og Spánn, en svo skemmtilega háttar að liðið í neðsta sæti, Paragvæ, á enn tölfræðilega möguleika á að komast áfram, en liðið í næstneðsta sætinu, Angóla, á það ekki. Í B-riðli hefur Noregur þegar tryggt sig áfram, en fjórar þjóðir berjast um hin þrjú sætin sem tryggja farseðilinn í 16-liða úrslitin; Tékkland, Svíþjóð, Ungverjaland og Pólland.


Leikir dagsins:
Kl.13.00 Paragvæ – Slóvenía
Kl.17.00 Rúmenía – Angóla
Kl.19.30 Spánn – Frakkland
Þrjú efstu liðin, Rúmenía, Frakkland og Spánn, eru örugg um sæti í 16-liða úrslitum, en Slóvenía á langsóttan möguleika á að falla úr leik þrátt fyrir vænlega stöðu eftir þrjár umferðir. Paragvæ á möguleika á að skjótast upp fyrir Slóveníu, liðin mætast í dag og vinni Paragvæ bæði þann leik og leikinn gegn Angóla í lokaumferðinni, sem er frekar líklegt, og Slóvenía tapar fyrir Spáni í lokaumferðinni kemst Paragvæ áfram vegna; liðin verða þá jöfn að stigum og Paragvæ kemst áfram á sigrinum í innbyrðisviðureigninni. Flókið? Þetta er tölfræðilega mögulegt, en afar afar afar langsótt, Slóvenía á að öllu eðlilegu að rúlla yfir Paragvæ, sem hefur skorað fæst mörk allra liðanna í riðlinum og fengið flest á sig, og tryggja sér þar með sæti í 16-liða úrslitum. Rúmenía fer létt með Angóla í dag og gæti gulltryggt efsta sæti riðilsins, en erfiðara er að spá fyrir um leik Spánar og Frakklands. Ef allt er eins og það á að vera vinna Frakkar þennan leik, það eina sem þó er hægt að tryggja er að þetta verður spennandi og skemmtilegur leikur. Bæði liðin eru búin að spila gegn botnliðunum tveimur, Spánverjar töpuðu svo fyrir Rúmenum og Frakkar fyrir Slóvenum.


Leikir dagsins:
Kl.13.00 Pólland – Ungverjaland
Kl.17.00 Svíþjóð – Argentína
Kl.19.30 Tékkland – Noregur
Þetta er um margt áhugaverðasti og erfiðasti riðillinn, fyrir alla aðra en Norðmenn. Lærimeyjar Þóris Hergeirssonar eru öruggar inn í 16-liða úrslitin, en fjögur lið berjast svo um að fylgja þeim norsku áfram; Tékkland, Svíþjóð, Ungverjaland og Pólland. Argentína á tölfræðilega möguleika ennþá, en raunsæið segir okkur blanda þeim ekki í þessar vangaveltur. Allt er í hnút og upp í loft, í innbyrðisviðureignum þessarar fjögurra þjóða eru Tékkar búnir að vinna Pólverja og tapa fyrir Svíum, Svíar búnir að tapa fyrir Pólverjum en vinna bæi Ungverja og Tékka, Ungverjar tapa fyrir Svíum og Pólverjar búnir að vinna Svía en tapa fyrir Tékkum. Tveir leikja dagsins eru sérlega áhugaverðir, Pólland – Ungverjaland og Tékkland – Noregur. Svíþjóð á að vinna Argentínu nokkuð auðveldlega. Tékkland á tvo erfiða leiki eftir, gegn Noregi í dag og gegn Ungverjalandi í lokaumferðinni. Ungverjar eru í svipaðri stöðu, leika gegn Pólverjum í dag og Tékkum í lokaumferðinni. Svíar spila gegn Argentínu í dag og Noregi í lokaumferðinni, geta gert ráð fyrir því að uppskeran verði tvö stig. Pólverjar eiga Ungverja í dag og Argentínu í lokaumferðinni. Tvö nokkuð örugg stig, spurning hvað gerist í dag.

Deila