HM kvenna | Leikir dagsins | Línur skýrast í C- og D-riðlum

Mynd: NordicPhotos/Getty

Sex leikir eru á dagskrá heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik í Þýskalandi í dag, leikið er í C- og D-riðlum en liðin í A- og B-riðlum eiga frídag. Línur gætu skýrst talsvert í dag; í C-riðli á Rússland, sem þegar hefur tryggt sér sæti í 16-liða úrslitum, leik gegn Japan sem vann dýrmætan sigur á Svartfjallandi í gær og sótti stig gegn Brasilíu í fyrstu umferðinni. Svartfellingar fá gott færi á að komast aftur á sigurbraut, en mótherjar dagsins eru Túnisbúar sem eru án stiga eftir þrjár umferðir og hafa fengið á sig 96 mörk, jafnmörg og Paragvæ, en aðeins Argentína (97) og Kína (114) hafa fengið á sig fleiri mörk. Lokaleikur dagsins í C-riðli lofar góðu, en þá mætast Brasilía og Danmörk. Brassar hafa verið ósannfærandi, en Danir ágætlega sannfærandi í tveimur síðustu leikjum eftir tap gegn Svartfellingum í fyrstu umferð. Danir rusla inn mörkum, hafa skorað 93 mörk og aðeins Noregur (101) og Serbar (99) hafa skorað meira.
Í D-riðli ganga tvö lið að stigum nokkuð vísum í dag; S-Kórea og Þýskaland, sem ásamt Serbíu er öruggt áfram. S-Kórea mætir Kamerún og Þjóðverjar mæta Kínverjum; Kamerún og Kína eru stigalaus og nokkuð ljóst að annað eða bæði yfirgefa Þýskaland án stiga, en þau mætast í lokaumferð riðilsins. Leikur Serba og Hollendinga er athyglisverður, Serbar þegar búnir að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum og nánast öruggt að Hollendingar komast þangað líka þótt þeir bæti ekki fleiri stigum í sarpinn, þökk sé Kamerún og Kína. Serbía og Holland eru í hópi markahæstu liða í fyrstu þremur umferðunum; Serbar næstmarkahæstir með 99 mörk og Hollendingar skammt undan með 91 mark.

HM kvenna | Leikir dagsins:
Kl.11.00 Kamerún – S-Kórea | D-riðill
Kl.13.00 Rússland – Japan | C-riðill
Kl.14.30 Serbía – Holland | D-riðill
Kl.16.45 Túnis – Svartfjallaland | C-riðill
Kl.17.00 Þýskaland – Kína | D-riðill
Kl.19.15 Brasilía – Danmörk | C-riðill

Deila