HM kvenna | Fimm lið komin áfram | Noregur og Rússland virðast illviðráðanleg

Mynd: ihf.info

Óvænt úrslit urðu strax í öðrum af tveimur fyrstu leikjum dagsins á heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik í Þýskalandi, en Japanir gerðu sér lítið fyrir og unnu Svartfellinga með 29 mörkum gegn 28. Japan gerði jafntefli við Brasilíu í fyrstu umferðinni en tapaði stórt fyrir Danmörku í fyrradag og margir töldu að japanska blaðran væri sprungin. Því fer fjarri, Svartfellingar höfðu þriggja marka forystu í hálfleik í dag, 15-12, en Japanir spiluðu eins og englar í síðari hálfleik og fögnuðu eins marks sigri. Þá vann S-Kórea stóran og sannfærandi sigur á Kína, 31-19, og Kínverjar eru þar með búnir að fá á sig 114 mörk í þremur fyrstu leikjum sínum, 38 mörk að meðaltali í leik.
Rúmenar unnu sterkan og mikilvægan sigur á Spánverjum, 19-17, og tryggðu sér þar með sæti í 16-liða úrslitum. Ungverjar hrukku hressilega í gang eftir tvo tapleiki í upphafi móts, unnu Argentínu með átján marka mun, 33-15. Ungverjar mættu sterkum liðum Noregs og Svíþjóðar í tveimur fyrstu leikjunum og þóttu ósannfærandi, en voru líkari sjálfum sér í leiknum gegn Argentínu.
Noregur átti ekki í teljandi vandræðum með Pólland og leiddi 18-11 í hálfleik. Stúlkur Þóris Hergeirssonar juku við forskotið í síðari hálfleik og unnu með fimmtán marka mun, lokatölur Noregur 35-20. Noregur hefur fullt hús stiga og er öruggt áfram og sömu sögu er að segja af Rússlandi, sem virtist spila á hálfum hraða gegn Brasilíu en vann engu að síður þægilegan átta marka sigur, 24-16. Rússnesku stúlkurnar gerðu um það bil það sem þær þurftu og virðast líklegastar til að veita þeim norsku samkeppni í baráttunni um titilinn.
Þýskaland og Serbía gerðu jafntefli í spennandi og sveiflukenndum leik. Serbar voru sterkari framan af og höfðu forystu í hálfleik, Þjóðverjar léku af krafti í síðari hálfleik og virtust ætla að tryggja sér sigurinn á lokakaflanum, en lokamarkið var serbneskt og jafnteflið þýðir að bæði lið hafa bókað farseðilinn í 16-liða úrslitin.
Liðin fimm sem komin áfram eru Rúmenía úr A-riðli, Noregur úr B-riðli, Rússland úr C-riðli og Serbía og Þýskaland úr D-riðli.

HM kvenna | Leikir dagsins
A-riðill:
Slóvenía 32-25 Angóla
Frakkland 35-13 Paragvæ (14-10)
Rúmenía 19-17 Spánn (9-7)

B-riðill:
Ungverjaland 33-15 Argentína
Svíþjóð 36-32 Tékkland (16-18)
Noregur 35-20 Pólland (18-11)

C-riðill:
Svartfjalland 28-29 Japan (15-12)
Mörk Svartfjallalands: Jovanka Radicevic 7, Tatjana Brnovic 6, Milena Raicevic 4, Itana Grbic 4, Katarina Bulatovic 3, Bobana Klikovac 2, Durdina Jaukovic 1, Jelena Despotovic 1.
Mörk Japans: Auaka Ikehara 9, Anri Matsumura 5, Yui Sunami 4, Aya Yokoshima 3, Haruno Sasaki 3, Nozomi Hara 2, Shiori Nagata 2, Chie Katsuren 1.
Rússland 24-16 Brasilía (14-7)
Mörk Rússlands: Daria Samokina 6, Iullia Managarova 5, Polina Vededhina 4, Ekaterina Ilina 2, Karina Sabirova 2, Yulia Markova 1, Mayya Petrova 1, Ksenilia Makeeva 1, Anna Vyakhireva 1, Daria Dimitrieva 1.
Mörk Brasilíu: Eduarda Taleska 5, Petricia Silva 3, Ana Paula Belo 2, Samira Rocha 2, Tamiers Araujo 1, Tamires Costa 1, Patricia Machado 1, Karoline Souza 1.
Danmörk 37-19 Túnis (15-6)

D-riðill:
S-Kórea 31-19 Kína
Holland 29-22 Kamerún
Mörk Hollands: Laura van der Heijden 4, Estavana Polman 4, Debbie Bont 3, Lois Abbingh 3, Danick Snelder 3, Yvette Broch 3, Angela Malestein 3, Angela Steenbakkers 2, Martine Smeets 2, Lynn Knippenborg 1, Nycke Groot 1
Mörk Kamerún: Vanessa Djiemou Medibe 4, Yolane Touba Byolo 4, Pasma Nchouapouognigni 3, Anne Michelle Essam 3, Jacky Baniomo 3, Genny Ange Mahala Fonguieng 1, Jacqueline Mossy Solle 1, Jasmine Yotchoum 1, Aubiege Njampou Nono 1, Lisa Atangana Belibi 1
Þýskaland 22-22 Serbía (9-11)

Deila