HM kvenna | Hvað kom á óvart og hvað ekki í tveimur fyrstu umferðunum

Mynd: NordicPhotos/Getty

Tveimur umferðum er nú lokið á HM kvenna í handbolta í Þýskalandi, frídagur í dag og því ekki úr vegi að líta aðeins yfir farinn veg og melta það hvað kom á óvart í tveimur fyrstu umferðunum og hvað ekki. Nokkuð óvænt úrslit urðu í fyrstu umferðinni, þar sem m.a. Frakkland, Svíþjóð og Holland töpuðu leikjum sínum og Brasilía tapaði stigi, en úrslit annarrar umferðar voru nær því að teljast eftir bókinni. Þó hefur vandræðagangur og stigaskortur Ungverja komið nokkuð á óvart, en liðið hefur þegar mætt tveimur sterkustu andstæðingunum í B-riðli og gæti þess vegna unnið þrjá næstu leiki. Rússneska liðið er ógnarsterkt og líklegt til afreka en enginn stenst þó samanburð við norska liðið undir stjórn Þóris Hergeirssonar. Frammistaða þeirra norsku í tveimur fyrstu leikjunum hefur farið nærri því að vera óaðfinnanleg og spekingar eru flestir á einu máli um að sigurlíkur þeirra séu talsverðar.

A-riðill:
Spánn 4 stig, Tékkland 4 stig, Svíþjóð 2 stig, Pólland 2 stig, Ungverjaland 0 stig, Argentína 0 stig.
Spánn og Rúmenía hafa unnið báða leiki sína til þessa, en Spánverjar njóta þó góðs af því að hafa spilað við tvö lökustu liðin í tveimur fyrstu umferðunum; Angóla og Paragvæ. Slóvenar komu þægilega á óvart með sigri á Frökkum í fyrstu umferðinni, en töpuðu fyrir Rúmeníu í annarri umferð. Baráttan um efsta sæti riðilsins kemur væntanlega til með að standa á milli Frakklands og Rúmeníu og leikur þeirra í lokaumferðinni gæti orðið hreinn og klár úrslitaleikur um toppsætið.

B-riðill:
Noregur 4 stig, Tékkland 4 stig, Svíþjóð 2 stig, Pólland 2 stig, Ungverjaland 0 stig, Argentína 0 stig.
Noregur. Herregud. Þær norsku hafa unnið Ungverjaland og Argentínu nánast án þess að blása úr nös. Þetta er einfaldlega óheyrilega gott handboltalið og enginn spilar betur en Nora Mörk. Pólverjar gerðu vel í að vinna Svía í fyrstu umferð, en töpuðu fyrir Tékkum í annarri umferð. Tékkar eru í þessu af fullri alvöru, hafa unnið Argentínu og Pólland. Ungverjar finna engan veginn fjölina sína, mættu reyndar Norðmönnum og Svíum í tveimur fyrstu umferðunum, en frammistaðan kemur meira á óvart heldur en úrslitin. Leikirnir gegn Pólverjum og Tékkum ráða örlögum liðsins. Norsku stúlkurnar rúlla þessum riðli upp, þær sænsku fylgja fast á eftir og baráttan um þriðja og fjórða sætið verður áhugaverð. Tékkland á eftir að spila við bæði Noreg og Svíþjóð og mætir Ungverjum í lokaumferðinni. Í síðustu umferðinni verður líka boðið til sannkallaðrar Skandinavíuveislu þegar Norðmenn og Svíar eigast við.

C-riðill:
Rússland 4 stig, Brasilía 3 stig, Danmörk 2 stig, Svartfjallaland 2 stig, Japan 1 stig, Túnis 0 stig.
Rússneska liðið, undir stjórn goðsagnarinnar Yevgeni Trefilov, lítur ljómandi vel út og sigurinn gegn Svartfellingum í annarri umferð var dýrmætur. Liðið verður miklu frekar dæmt af þeim leik heldur en upprúlluninni á Túnis í fyrstu umferð. Brasilía var hársbreidd frá því að tapa leiknum gegn Japönum í fyrstu umferð og var alls ekki sannfærandi í eins marks sigri á Túnis. Leikur þeirra brasílsku hefur valdið vonbrigðum. Svartfellingar, með Jovönku Radicevic og Katarinu Bulatovic í góðum gír, gætu komið á óvart, unnu Dani sannfærandi í fyrstu umferð. Danir voru afar sannfærandi gegn Japönum í annarri umferð og mæta ekki Rússum fyrr en í lokaumferðinni. Japanir búa að meiri Evrópureynslu en oft áður og búa sig undir HM og ÓL og Japan, en hraðlestarleikur þeirra hefur litlu skilað til þessa. Ef allt er eðlilegt fara Rússar, Svartfellingar, Brasilíumenn og Danir áfram.

D-riðill:
Serbía 4 stig, Þýskaland 4 stig, Holland 2 stig, S-Kórea 2 stig, Kamerún 0 stig, Kína 0 stig.
Stóru tíðindin í þessum riðli felast í sigri S-Kóreu á Hollandi í fyrstu umferðinni. Enginn sá þau úrslit fyrir. Hollendingar unnu Kínverja með 25 marka mun í annarri umferð og mæta Kamerúnum í þeirri þriðju. Stig í hús. Þjóðverjar hafa verið sæmilega sannfærandi og unnu S-Kóreu í annarri umferð. Serbar hafa fullt hús stiga, en hafa haft það náðugt, mættu Kínverjum og Kamerúnum í tveimur fyrstu leikjum sínum og þurfa að hafa meira fyrir hlutunum í tveimur næstu leikjum sínum, gegn Þýskalandi og Hollandi. Fjögur efstu liðin í þessum riðli ættu að vera Holland, Þýskaland, Serbía og S-Kórea, eina spurningin er hvernig þau raða sér í sætin og ef Kamerún eða Kína næla í stig verða jólin í október á næsta ári.

Deila