HM 2018 | Heimir Hallgrímsson: Svolítið spes að allir eru að skora sitt fyrsta landsliðsmark

Heimir Hallgrímsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, var ánægður með framlag leikmanna í 6:0 sigri á úrvalsliði Indónesíu í dag.

Íslenska liðið átti ekki í neinum vandræðum með úrvalsliðið sem fólkið í Indónesíu valdi en liðið mætir síðan landsliði Indónesíu í síðari leiknum.

Andri Rúnar Bjarnason, Kristján Flóki Finnbogason, Óttar Magnús Karlsson, Tryggvi Hrafn Haraldsson, Hjörtur Hermannsson og Hólmar Örn Eyjólfsson skoruðu mörkin í leiknum.

,,Það voru ágætis aðstæður í fyrri hálfleik og fengum mikinn tíma á boltann. Þeir gáfu okkur tíma og við nýttum okkur það. Þetta er mjög ólíkt þeim stíl sem við höfum spilað, svo við vorum ekkert rosalega glaðir með það sem við vorum að gera,“ sagði Heimir.

,,Það er merkilegt að þegar við þurftum að koma boltanum, löngum og háum inn í teiginn þá fóru hlutirnir að ganga. Þó fótboltinn hafi ekki verið upp á marga fiska en alla vega var það áhrifaríkara en það sem við vorum að gera í fyrri hálfleik.“

,,Það sem stendur upp úr er hvaða leikmenn hafa verið að gera á æfingum og við höfum átt góða fundi með þeim. Það er stór hluti af því að verða landsliðsmaður er að geta unnið í því umhverfi sem við erum að vinna í. Við munum ekki dæma einn né neinn út frá þessum leik.“

,,Allir sex leikmennirnir voru að skora sitt fyrsta landsliðsmark sem er svolítið spes og þetta er stærsti sigur Íslands í óratíma og einn stærsti útisigurinn en mótherjarnir voru slakir og við viljum ekkert spila svona leiki. Það á enginn leikur að fara 6:0,“ sagði hann ennfremur.

Deila