Handbolti | Myndum stolið úr síma Noru Mörk | Handboltastjarnan upplifði martröð

Norska handboltastjarnan Nora Mörk, sem leikur með ungverska stórliðinu Györi, hefur opinberað að myndum hafi verið stolið úr síma hennar og dreift á netinu. Mörk segist í viðtali við TV2 hafa upplifað hreina og klára martröð undanfarin misseri, sjálfstraust hennar hafi beðið hnekki, gleði og ánægja á undanhaldi, en hún segir frá málinu opinberlega til að ná tökum á lífi sínu á ný og skila skömminni þangað sem hún á heima.

Nora Mörk er 26 ára og ein fremsta handboltakona heims, lykilmaður í margverðlaunuðu landsliði Noregs og hinu geysisterka ungverska liði Györi, sem er ríkjandi Evrópumeistari. Hún hefur farið mikinn í Meistaradeildinni á þessari leiktíð, skoraði t.a.m. þrettán mörk gegn Midtjylland um síðustu helgi, og þeim sem séð hafa til hennar á handboltavellinum hefur væntanlega ekki rennt í grun að ekki væri allt með felldu.
Mörk komst að því þegar hún var með landsliðinu í Þrándheimi fyrir tveimur mánuðum að brotist hafði verið inn í síma hennar, myndum stolið og þeim dreift á netinu.
„Líf mitt hefur gjörbreyst“, segir Mörk m.a. í viðtalinu við TV2. „Ég var alltaf glöð og kát, en finn að sjálfstraustið er horfið. Hver einasti dagur er slítandi. Það er erfitt að standa í þessu. Ég held að fólk átti sig ekki á því hvaða áhrif þetta hefur á mann. Það var einhver sem braust inn í einkalífið mitt, stal frá mér og kaus að deila því með öllum. Þetta hefur brotið mig niður.“
Málið er litið svo alvarlegum augum að Mörk átti fund með þingmönnum Verkamannaflokksins og Hægriflokksins í norska Stórþinginu í gær, enda var hér rofin friðhelgi þekkts einstaklings í Noregi. Maður á þrítugsaldri hefur viðurkennt verknaðinn.
„Það eru þrjár meginástæður fyrir því að ég ákvað að segja frá þessu opinberlega. Ég vil taka stjórn á lífi mínu á ný. Ég er reið, vonsvikin, leið og pirruð. Ég geri þetta líka fyrir stúlkur sem eru þarna úti og eru í svipuðum sporum og ég. Kannski er erfiðasti hlutinn sá að það eru ungar stúlkur sem líta upp til mín, ég vona að þær hætti því ekki.“

Mörk segist hafa verið svefnvana og lystarlaus og hún velti því alvarlega fyrir sér að gefa ekki kost á sér í norska landsliðið fyrir HM í Þýskalandi í næsta mánuði.
„Mig langaði mest að kaupa mér flugmiða og fela mig hinum megin á hnettinum. Þá vinnur sá sem braut á mér. Ég lifi fyrir handboltann og elska að vera leikmaður. Mig langar að leika fyrir hönd Noregs og vona að ég standi mig. Ég þarf að endurheimta stjórnina. Ég veit að ég get ekki haft stjórn á öllu, en ég er orðin manneskja sem ég þekki ekki. Illa þenkjandi einstaklingar eiga ekki að fá að eyðileggja drauminn minn um að verða besta handboltakona í heimi.“

Deila