Handbolti | Leynaud, Kristiansen og Brattset til liðs við Györi | Kiss skrifaði undir nýjan samning

Mynd: NordicPhotos/Getty

Forráðamenn Evrópumeistara Györi í handbolta kvenna sitja ekki auðum höndum þessa dagana, en þeir hafa samið við þrjá gríðarlega sterka leikmenn sem ganga til liðs við ungverska stórliðið í lok leiktíðar. Franski landsliðsmarkvörðurinn Amandine Leynaud kemur frá Vardar og norsku landsliðskonurnar Veronica Kristiansen og Kari Brattset ganga til liðs við Györi frá Midtjylland og Kristianstad.

Varla þarf að hafa mörg um þennan liðsstyrk; Brattset kemur inn á línuna í stað Önju Althaus sem hefur verið meidd og leggur skóna á hilluna í lok leiktíðar og myndar þar ógnarsterkt par með Yvette Broch og Kristiansen getur spilað bæði vinstri skyttu og miðju og fjölgar möguleikunum í útilínu Györi, nokkuð sem hefur vantað upp á. Þá skemmir það ekki fyrir að Györi er að verða nokkurs konar útibú norska landsliðsins, en þar verða á komandi leiktíð norsku lykilleikmennirnir Nora Mörk, Stine Bredal Oftedal, Kari Grimsbö, Kari Brattset og Veronica Kristiansen.
Fregnir af vistaskiptum Leynaud hafa verið á sveimi um nokkurt skeið, fjárhagslegur bakhjarl Vardar ætlar að draga sig í hlé í lok leiktíðar og leikmenn félagsins, flestir í allra fremstu röð, dreifa sér þessa dagana í ýmsar áttir. Koma Leynaud var talin hafa þau áhrif að Eva Kiss, margreynd ungversk landsliðskona, myndi róa á önnur mið, enda norski landsliðsmarkvörðurinn Kari Grimsbö á mála hjá Györi og fátítt er að lið hafi innan sinna raða þrjá markverði í allra fremstu röð. Sú mun þó verða raunin á komandi leiktíð þar sem Eva Kiss hefur skrifað undir nýjan samning við Györi, svokallaðan einn plús einn-samning. Sömu sögu er að segja af vinstri skyttunni Zsuzsanna Tomori, sem þykir hafa staðið sig ljómandi vel í fjarveru Eduördu Amorim, sem er á batavegi eftir handleggsbrot og skeiðar til vallar áður en langt um líður. Þá hefur hin unga og efnilega hornastúlka Szidónia Puhalák samið við Györi til tveggja ára.

Deila