Handbolti | Heimir Örn leggur flautuna til hliðar – einbeitir sér að KA

Mynd: ka.is

Heimir Örn Árnason, handknattleiksmaður og dómari, hefur ákveðið að leggja dómaraflautuna til hliðar í bili og einbeita sér að því að leika með KA í Grill66-deild karla. Þetta kemur fram á heimasíðu KA. Heimir er hokinn af reynslu, í sem víðustum skilningi, en hann hugðist leggja skóna á hilluna og snéri sér þá að dómgæslu með ljómandi árangri. Heimir og meðdómari hans, Sigurður Þrastarson, voru valdir bestu dómararnir á síðustu leiktíð.

Heimir skrifaði undir leikmannasamning við KA, uppeldisfélag sitt, fyrir skemmstu og þótti mörgum það skjóta skökku við að dómari í efstu deildum gæti spilað í Grill66-deildinni. Flækjan sú er nú úr sögunni, Heimir hvílir dómaraflautuna, einbeitir sér að því að spila með KA í vetur og kemur án nokkurs vafa til með að reynast ungu Akureyrarliðinu mikill fengur.

Deila