Handbolti | Aron Kristjánsson hættir með Álaborg

Danska handknattleiksfélagið Álaborg sendi frá sér fréttatilkynningu í dag þess efnis að Aron Kristjánsson muni hætta sem þjálfari liðsins að loknu yfirstandandi timabili. Aron óskaði eftir því að fá að stíga til hliðar af persónulegum ástæðum og hyggst flytja heim til Íslands.

„Við erum auðvitað ótrúlega leið yfir því að missa Aron sem þjálfara. Við höfum verið og erum enn mjög ánægð með samstarfið. Hann er virkilega vandvirkur og markviss þjálfari. Hann sýndi snilli sína sem þjálfari á sínu fyrsta tímabili með því að vinna danska meistaratitilinn. En við skiljum þessa ósk Arons um að fá að fara heim með fjölskylduna,“sagði Jan Larsen framkvæmdarstjóri félagsins í tilkynningunni.

„Ég hef átt góða tíma hér í Álaborg og þess vegna er þetta ekki auðveld ákvörðun. Hins vegar verð ég að setja fjölskylduna í fyrsta sætið og ég er þakklátur fyrir að hafa náð samkomulagi við félagið. Metnaður minn fyrir Álaborg er ekki búinn. Ég mun vinna hörðum höndum að því að vinna titilinn fyrir félagið og stuðningsmenn þess,“ sagði Aron Kristjánsson.

Deila