Fótbolti | Strachan hættur með Skotland

Mynd: NordicPhotos/Getty

Skoska knattspyrnusambandið komst í dag að samkomulagi við Gordon Strachan landsliðsþjálfara um starfslok  samnings hans hjá sambandinu.
Strachan tók við skoska landsliðinu 2013 og var nálægt því að koma Skotlandi í umspil fyrir HM 2018.  Skotar gerðu jafntefli í Slóveníu í síðasta leik og þar með urðu vonir þeirra að engu um umspil.
Aðstoðarmaður Strachan, Mark McGhee lætur einnig af störfum.
Gordon Strachan var mjög vinsæll meðal leikmanna, fréttamanna og stuðningsmanna skoska landsliðsins og þessi ákvörðun um starfslok hans kom nokkrum á óvart en menn greinir á um hvort ákvörðunin hafi verið hans eða skoska knattspyrnusambandsins.
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hver eftirmaður Gordon Strachan verður en eflaust verða margir um hituna.

Deila