Fótbolti | Ronaldinho leggur fótboltaskóna á hilluna

Brasilíski snillingurinn Ronaldinho hefur formlega lagt fótboltaskóna á hilluna eftir afar farsælan feril. Það er óhætt að segja það að Ronaldinho er einn af bestu leikmönnum sem hafa spilað leikinn.

Ronaldinho, sem er 37 ára gamall, hóf ferilinn hjá Gremio í Brasilíu áður en hann var seldur til Paris Saint-Germain árið 2001. Hann spilaði glimrandi vel með franska félaginu en komst oft í fréttirnar fyrir agabrot utan vallar og ákvað því að færa sig um set árið 2003.

Árinu áður hafði hann komist í fréttirnar fyrir magnað sigurmark sitt gegn Englendingum en hann skoraði þá úr aukaspyrnu af löngu færi sem David Seaman misreiknaði svakalega.

Ronaldinho samdi við Barcelona á Spáni árið 2003. Það átti eftir að reynast upphaf á frábærum fótbolta sem hann ákvað að innleiða í herbúðir félagsins. Á fimm árum sínum hjá Barcelona vann hann spænsku deildina tvisvar, Meistaradeild Evrópu einu sinni og spænska bikarinn tvisvar. Hann var valinn besti leikmaður heims tvö ár í röð af FIFA, árin 2004 og 2005.

Hann gekk til liðs við AC Milan árið 2008 og spilaði þar í þrjú ár. Hann vann ítölsku deildina einu sinni með liðinu og skoraði einhver 26 mörk í 95 leikjum. Hann gekk þaðan til liðs við Flamengo og lék með liðinu í tvö tímabil áður en hann fór til Atletico Miniero. Hann spilaði vel með báðum liðum og gerði svo stuttan samning við Queretaro í Mexíkó tímabilið 2014-2015.

Hann lék þá síðast með Fluminense fyrir tveimur árum en hann lék þá 9 leiki. Hann hefur undanfarnar vikur verið að leika í Ofurdeildinni í Indlandi þar sem leikið er á innanhúsvelli og virðist hann ætla að taka það að sér.

Deila