Fótbolti | Katar jafnaði í blálokin gegn Íslandi

Mynd: NordicPhotos/Getty

A-landslið karla í fótbolta lék í dag seinni leik sinn í þriggja liða móti sem fór fram í Katar en auk Íslands og Katar var Tékkland meðal þátttökuliða.
Leikur dagsins var ekkert sérstaklega góður af hálfu Íslands en okkar menn komust yfir á 26.mínútu með marki frá Viðar Erni Kjartanssyni. Þetta var annað landsliðsmark Viðars í 16 landsleikjum. Katarar voru töluvert meira með boltann í leiknum en íslenska vörnin hélt vel með Jón Guðna Fjóluson sem besta mann auk þess sem markverðinir Ögmundur Kristinsson og Ingvar Jónsson stóðu sig vel. Ingvar varð að sýna meistaratakta á 87.mínútu þegar hann varði þrumuskot úr aukaspyrnu. En í uppbótartíma fékk Muhamed Muntari boltann einn og óvaldaður inní vítateig Íslands og nýtti það fullkomlega. Lokatölur urðu svekkjandi 1-1 jafntefli.
Heimir Hallgrímsson var með mikla tilraunastarfsemi í leiknum og er það eðlilegt. Hann prófaði til dæmis að leika með þriggja manna vörn en það er eitthvað sem íslenska liðið er alls ekki vant að spila.
Tékklandi sigraði í þessari þriggja liða keppni, vann báða sína leiki, 1-0 gegn Katar og 2-1 gegn Íslandi.

Deila