Fótbolti | Figo verður ráðgjafi hjá UEFA

Mynd: NordicPhotos/Getty

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, tilkynnti í dag að Luís Figo hafi verið ráðinn sem sérstakur ráðgjafi hjá sambandinu.
Luís Figo, sem verður 45 ára 4.nóvember næstkomandi, var á sínum tíma frábær í fótbolta og lék 127 landsleiki fyrir Portúgal á árunum 1991 – 2006. Hann hóf sinn feril hjá Sporting árið 1989, þaðan fór hann til Barcelona og lék þar til ársins 2000 en þá var hann seldur til Real Madrid. Með Madrid lék hann í fimm ár en fór til Inter árið 2005 og lauk ferlinum þar 2009. Figo varð spænskur meistari með bæði Barcelona og Real Madrid auk þess að sigra í Meistradeild Evrópu með Madrid. Þá varð hann portúgalskur meistari með Sporting og ítalskur meistari með Inter. Figo var svo útnefndur besti knattspyrnumaður heims árið 2000.
Luís Figo kemur til með að starfa náið með forseta UEFA, Aleksander Cefrin, en auk Figo í þessari nefnd eru Dejan Stankovic og Nadine Kessler.

Deila