Fótbolti | Ancelotti að taka við þjálfun ítalska landsliðsins?

Mynd: NordicPhotos/Getty

Forráðamenn ítalska knattspyrnusambandsins eru sagðir velta því fyrir sér af fullri alvöru þessa dagana að leysa landsliðsþjálfarann Giampiero Ventura undan skyldum sínum óháð niðurstöðunni í einvíginu við Svía í umspili undankeppni HM og draumur þeirra er að Carlo Ancelotti taki við keflinu.

Ventura er samningsbundinn sambandinu til 2020, en gagnrýnisraddir eru háværar, liðsvalið þykir á köflum undarlegt og frammistaða liðsins almennt séð undir pari. Ítalskir netmiðlar telja sig hafa heimildir fyrir því að Ventura verði látinn taka pokann sinn, jafnvel þótt Ítalir vinni Svía á San Siro annað kvöld og tryggi sér sæti á HM og unnið er að því hörðum höndum að sannfæra Carlo Ancelotti um að framtíð hans sé best borgið í starfi landsliðsþjálfara. Ancelotti býr að sérlega álitlegri afrekaskrá, hefur stýrt flestum aðsópsmestu félagsliðum álfunnar, en hefur ekki enn spreytt sig á landsliðssviðinu.
Ancelotti er ekki eini maðurinn sem ítalskir hafa augastað á, takist ekki að sannfæra hann um að taka við landsliðinu á að leita til Antonio Conte og þriðji kostur er Gigi Di Biagio, þjálfari U21-árs landsliðsins. Þessar fregnir og vangaveltur benda eindregið til þess að dagar Ventura séu senn taldir.

Deila