FH-ingar mæta St. Pétursborg á sunnudagsmorgun

Mynd:FH handbolti

Handknattleikslið FH mætir St. Pétursborg HC í vítakeppni á sunnudaginn klukkan 9 að íslenskum tíma en Ásgeir Jónsson, formaður handknattleiksdeildar FH, staðfesti þetta við Sport.is í dag.

FH-ingar ferðast til Rússlands á föstudaginn og eiga svo vítakeppnina í hádeginu að rússneskum tíma, en þriggja tíma mismunur er á milli Íslands og Rússlands.

Málið hefur allt verið afar skrautlegt en FH vann heimaleik sinn 32:27, St. Pétursborg vann með sömu tölu í Rússlandi og var því framlengt. St.Pétursborg fagnaði að lokum sigri í leiknum, 37-33, en þessi úrslit fleyttu FH-ingum áfram, 65-64 samanlagt. Rússarnir kærðu framkvæmd leiksins þar sem aldrei átti að grípa til framlengingar samkvæmt laganna bókstaf og dómstóll EHF féllst á kröfu þeirra um að fella úrslit framlengingar niður. Staðan í einvíginu er því í raun jöfn, 59-59, og sigurvegarinn verður ákvarðaður með vítakeppni.

Því mun FH-liðið ferðast til Rússlands og kemur því í ljós fyrir hádegi á sunnudag hvort liðið fari áfram í næstu umferð. Sigurvegarinn mætir TATRAN Presov í þriðju umferð í undankeppninni.

Deila