Euroleague | Dramatískur sigur tryggði CSKA sæti í FinalFour | Real Madrid skautaði hjá Panathinaikos

Mynd: euroleague.net

CSKA og Real Madrid tryggðu sér í kvöld sæti í úrslitum Euroleague, FinalFour, í Belgrad í maí en niðurstaða allra fjögurra rimmanna í 8-liða úrslitunum reyndist sú sama; 3-1.
CSKA vann Khimki í einum æsilegasta leik leiktíðarinnar 89-88; eftir að hafa verið sautján stigum undir um miðjan þriðja leikhlutann settu Khimki-menn allar vélar í gang, söxuðu hægt og bítandi á forskotið og komust yfir, 87-85, rúmri mínútur fyrir leikslok. Alexey Shved, helsti stigaframleiðandi Khimki, setti tvö úrslitakeppnismet í leik gegn uppeldisfélagi sínu, en hann skoraði 36 stig og bætti þar með níu ára stigamet Terrell McIntyre hjá Montepaschi Siena frá 2009 sem nemur einu stigi og hitti úr átta þriggja stiga skotum, einu meira en Dusan Kecman hitti úr með Partizan Belgrad árið 2010. Cory Higgins skoraði körfuna sem réði úrslitum í leiknum 5.7 sekúndum fyrir leikslok og bókaði þar með sæti CSKA í FinalFour sjöunda árið í röð og í fimmtánda sinn á sextán árum. Eigi færri en fimm leikmenn CSKA skoruðu tíu stiga eða fleiri í leiknum.
Real Madrid náði undirtökunum í leik sínum gegn Panathinaikos í kvöld í öðrum leikhluta, Sergio LLull sem nýlega steig upp úr meiðslum kom inn af bekknum og undir hand handleiðslu skoruðu Madridingar þrjátíu stig á aðeins átta mínútum. Luka Doncic hreinlega framleiddi stig og hjó oftar en ekki á hnút, í þriðja leikhluta var forysta Real orðin tuttugu stig en Panathinaikos-menn neituðu að gefast upp á söxuðu á forskotið á hljóðlátan og hógværan hátt. Mínútu fyrir leikslok var munurinn kominn niður í þrjú stig, en þá skoraði Doncic ótrúlega þriggja stiga körfu sem tryggði sigurinn endanlega.
Í undanúrslitunum í FinalFour mætast Zalgiris og Fenerbahce annars vegar og CSKA og Real Madrid hins vegar.

Euroleague | 8-liða úrslit | Leikur 4
Khimki 88-89 CSKA Tölfræði leiksins
Real Madrid 89-82 Panathinaikos Tölfræði leiksins


Deila