Euroleague | Þrettán stiga sigur Fenerbahce á Tryggva og félögum | CSKA aftur á sigurbraut | Enn tapar Bamberg

Mynd: euroleague.net

Fjórir leikir fóru fram í Euroleague-deildinni í körfubolta í kvöld. Fenerbahce vann Valencia 80-67 þar sem Tryggvi Snær Hlinason kom stuttlega við sögu hjá spænska félaginu. Tryggvi fékk tæpar tvær mínútur gegn tyrkneska stórveldinu og nældi í eina stoðsendingu á tíma sínum á vellinum. Fenerbahce var sterkari aðilinn í fyrsta leikhluta en Valencia kom til baka í öðrum og þriðja leikhluta. Það var svo tyrkneska liðið sem hafði betur að lokum og hefur unnið tvo leiki í röð. Valencia hafði hins vegar unnið tvo leiki í röð fyrir rimmu kvöldsins og virtist vera að rétta sinn hlut lítið eitt eftir að hafa tapað tíu leikjum í röð þar á undan.
CSKA komst aftur á sigurbraut eftir tap í síðustu umferð og hefur unnið þrjá af síðustu fjórum; Moskvuliðið rúllaði yfir Olimpia Milan án teljandi vandræða 107-81. Milan hefur tapað fjórum leikjum í röð og situr í neðsta sæti.
Panathinaikos vann Barcelona 84-75 í áhugaverðum slag. Grikkirnir hafa unnið tvo leiki í röð og stöðvuðu tveggja leikja sigurgöngu Börsunga; Panathinaikos er í þriðja sæti og gefur toppliðunum, CSKA og Olympiacos, lítið eftir. Barcelona er hins vegar í tólfta sæti.
Maccabi Tel Aviv hristi af sér tveggja leikja taphrinu og vann Brose Bamberg 90-88. Bamberg hefur tapað fimm leikjum í röð og virðist vera í frjálsu falli, sitir í 13.sæti. Maccabi-liðið er um miðja deild og komst með sigrinum í kvöld upp fyrir 50% vinningshlutfallið.

Euroleague | 17.umferð | Leikir kvöldsins
Panathinaikos 84-75 Barcelona Tölfræði leiksins
Maccabi Tel Aviv 90-88 Brose Bamberg Tölfræði leiksins
Olimpia Milan 81-107 CSKA Tölfræði leiksins
Valencia 67-80 Fenerbahce Tölfræði leiksins
Deila