Euro League | Þægilegt hjá meisturunum – Olympiakos vann Valencia

Mynd: euroleague.net

Fjórum leikjum var að ljúka í Euro League-deildinni í körfubolta en Olympiakos vann Valencia 72:64 í hörkuleik. Tyrkneska liðið Fenerbahce vann þá góðan sigur á Baskonia Vitoria Gasteiz.

Fenerbahce er ríkjandi meistari í Euro League en liðið vann 83:69 sigur á Baskonia. Það var Baskonia sem byrjaði leikinn mun betur en liðið gerði 25 stig gegn 16 stigum Fenerbahce. Tyrkneska liðið tók þó við sér í öðrum og þriðja leikhluta og náði þannig að ýta Baskonia frá sér.

James Nunnally gerði 16 stig fyrir Fenerbahce og þá var Kostas Sloukas með 14 stig fyrir tyrkneska liðið. Á sama tíma vann Olympiakos lið Valencia 72:64. Leikurinn var í beinni útsendingu á Sport TV en Tryggvi Snær Hlinason, landsliðmaður í körfubolta, spilaði níu mínútur og tókst að gera geggjaða troðslu í leiknum.

Þrátt fyrir ágætis leik hjá honum þá tókst Valencia ekki að vinna og 72:64 lokatölur. Anadolu Efes Istanbul vann Milan 73:68 á meðan Maccabi Tel Aviv frá Ísrael vann 81:74 sigur á Zalgiris Kaunas frá Litháen.

Olympiakos er efst í deildinni með átta sigra og tvö töp, CSKA Moskva með sjö sigra og tvö töp en liðið á leik á morgun. Fenerbahce og Panathinaikos eru svo í þriðja og fjórða sæti deildarinnar.

Deila