Enski boltinn | Kane skoraði tvö mörk í sigri Spurs

Mynd: NordicPhotos/Getty

Nýliðar Huddersfield mættu Tottenham í fyrsta leik helgarinnar í enska boltanum í hádeginu í dag. Fyrir leikinn munaði aðeins tveimur stigum á liðunum, Tottenham með 11 en Huddersfield með 9 stig. Það tók markavélina Harry Kane ekki nema 9 mínútur að skora fyrsta mark leiksins. Sjö mínútum síðar var Tottenham komið í 2-0 með marki frá Ben Davies en Harry Kane kom að undirbúningi marksins ásamt Christian Eriksen og Dele Alli. Martröð Huddersfield í fyrri hálfleik hélt áfram á 24.mínútu þegar Harry Kane skoraði sitt annað mark. Þar með hefur Kane skorað 6 mörk í deildinni í 7 leikjum og 13 mörk í september mánuði fyrir Tottenham og enska landsliðið. Hann var síðan tekinn af velli á 86.mínútu.
Í uppbótartíma skoraði svo Moussa Sissoko fjórða mark Tottenham. Lokatölur Huddersfield 0 – Tottenham 4. Þar með er Tottenham komið með 14 stig í þriðja sæti en Manchester-liðin City og United eru efst með 16 stig og eiga leik til góða.

Deila