Er tankurinn að klárast hjá Benzema?

Mynd: GettyImages/NordicPhotos

Karim Benzema, framherji Real Madrid á Spáni, hefur verið einhver besti framherji heims síðustu ár en svo virðist sem að tankurinn sé að tæmast hægt og rólega hjá honum. Honum hefur gengið illa að finna sig á þessari leiktíð.

Benzema, sem er 29 ára gamall, er að spila sitt níunda tímabil með Real Madrid en hann hefur gert yfir 20 mörk á öllum tímabilunum nema tveimur. Hann skoraði aðeins 9 mörk í 33 leikjum á sínu fyrsta tímabili og þá gerði hann 19 mörk í 48 leikjum á síðasta tímabili.

Hann hefur spilað 12 leiki fyrir Madrídinga á þessu tímabili og aðeins tekist að skora 2 mörk en hann hefur verið afar ólíkur sjálfum sér og eru sérfræðingarnir í knattspyrnuheiminum farnir að hafa áhyggjur af stöðu hans.

Gary Lineker, sem lék á sínum tíma fyrir Barcelona og enska landsliðið, starfar nú hjá BBC á Englandi, en hann gagnrýndi Benzema í síðasta mánuði og fékk harkaleg viðbrögð bæði frá Zinedine Zidane, þjálfara Real Madrid, sem og Benzema sjálfum.

Þeir svöruðu gagnrýninni á þann hátt að ummælin væru vandræðaleg fyrir sérfræðinginn en hafði hann rangt fyrir sér?

Stuðningsmenn Real Madrid virðast vera á sama máli og Lineker en hann hefur lítið sýnt á þessu tímabili. Benzema er með það hlutverk í Madrídarliðinu að hann getur hjálpað til við að búa til pláss fyrir Cristiano Ronaldo og Gareth Bale en nú er velski landsliðsmaðurinn meiddur og hefur Isco leyst stöðu hans.

Staða Benzema hjá franska landsliðinu er þá afar slæm. Hann hefur ekki verið í landsliðinu í tæplega tvö ár eða eftir að hann var sakaður um að hafa reynt að hafa fé af Mathieu Valbuena, sem var þá liðsfélagi hans í franska landsliðinu. Dider Deschamps, þjálfari franska landsliðsins, hefur nóg af valkostum í landsliðið og virðist Benzema ekki vera partur af hans plönum.

Deschamps er með valkosti á borð við Olivier Giroud, Antoine Griezmann, Alexandre Lacazette, Nabil Fekir, Anthony Martial, Kylian Mbappe og Ousmane Dembele, sem er að vísu meiddur næstu mánuði, en Benzema vill þó komast til Rússlands. Það eru þó litlir sem engir möguleikar á að það verði af því.

Deila