Enski boltinn | Sam Allardyce tekur við stjórnartaumunum hjá Everton

Mynd: NordicPhotos/Getty

Forráðamenn enska úrvalsdeildarliðsins Everton hafa komist að samkomulagi við Sam Allardyce um að hann taki að sér knattspyrnustjórn félagsins. Allardyce, sem er margsigldur og mikils metinn, tekur við stjórnartaumunum af David Unsworth, sem ráðinn var tímabundið eftir að Ronald Koeman var sagt upp störfum, en árangur Unsworth var vægast sagt slakur. Sammy Lee verður aðstoðarmaður Allardyce hjá Everton, nokkuð sem líklega hefði þótt fjarstæðukennt fyrir fáeinum árum vegna órjúfanlegra tengsla Lee við Liverpool.

Sam Allardyce er 63 ára Englendingur og vakti fyrst almenna athygli þegar hann tók við stjórastarfinu hjá Bolton árið 1999 og stýrði liðinu upp í hæstu hæðir. Frá Bolton lá leiðin til Newcastle, Blackburn, West Ham og Sunderland hvar hann alla jafna náði ásættanlegum árangri og í júlí í fyrra var hann ráðinn þjálfari enska landsliðsins í knattspyrnu. Sá ráðahagur stóð þó aðeins í 67 daga, enska landsliðið lék aðeins einn leik undir stjórn Allardyce, sigurleik gegn Slóvakíu í undankeppni HM, áður en hann sagði starfi sínu lausu vegna ásakana um óeðlileg afskipti af asískum fjárfestingum í enska boltanum. Allardyce var ráðinn stjóri Crystal Palace á Þorláksmessu í fyrra og tókst að forða liðinu frá falli, en slíkar björgunaraðgerðir hafa hugnast honum ágætlega.

Allardyce þykir agaður og skipulagður, skilgreinir bæði veikleika og styrkleika eigin liða með tilliti til andstæðinga og stendur framarlega í tölfræði- og myndbandavinnslu í allri undirbúningsvinnu. Hann hefur á köflum verið gagnrýndur fyrir að treysta um of á langar sendingar og barning og baráttu og færa má fyrir því rök að liðin hans ná yfirleitt árangri í föstum leikatriðum, en hann kann að láta liðin sín spila ágætan bolta þegar hann hefur mannskap sem ræður við slíkt.

Deila